Miklar umræður hafa spunnist undanfarna daga um lokun Vinjar Bataseturs.
Vin Batasetur hefur starfað undanfarin ár á Hverfisgötu og veitt skjól einum af okkar viðkvæmustu þjóðfélagshópum; fólki með geðrænar áskoranir og fólki með geðræn vandamál. Á Vin ríkir kærleiksríkur og heimilislegur andi, þar er boðið uppá hádegismat í hefðbundnum stíl, og enn fremur geta gestir sinnt ýmissi iðju einsog tálga eða tefla en taflfélag Vinjar er löngu frægt orðið en það stofnuðu Róbert Lagermann og Hrafn Jökulsson. Á Vin eru reglulega haldin skákmót með viðhafnarhætti. Þess má geta að mannvinurinn Hrafn Jökulsson lagði á sig mikla vinnu fyrir nokkrum árum þegar átti að loka Vin, setti á laggirnar nýja stjórn og Vin hélt áfram sínu frábæra starfi. Í mótmælagreinum undanfarnar vikur þakka skjólstæðingar Vin fyrir geðheilsu sína.
Þegar sverfur að kemur gildismatið í ljós! Það er rakin ósanngirni og mikil skömm sem dynur á borgaryfirvöldum ef Vin verður lokað. Það er einfaldlega vitlaus leikur.
Höfundur er skáld.