Guðný Ragna Gunnþórsdóttir fæddist 17. ágúst 1938. Hún lést 10. desember 2022. Útför hennar fór fram 21. desember 2022.
Fyrstu kynni mín af Guðnýju og Skafta voru þegar ég byrjaði á sjó á Andeynni. Þar kynntist ég Þórhildi dóttir hennar eða Lillu eins og ég kalla hana alltaf. Við urðum fljótt mjög góðar vinkonur. Fórum við nokkrum sinnum á Breiðdalsvík í olíustopp og þá fórum við á Hótel Bláfell og fengum okkur að borða góðan mat hjá Guðnýju og síðan stóð Skafti og afgreiddi okkur á barnum langt fram á nótt eða þar til haldið var aftur á sjó. Við Lilla fórum nú oft í eldhúsið og fengum að gæða okkur á einhverju góðgæti sem Guðný var að malla.
Eins og allir sem hana þekktu vissu var hún snillingur í eldhúsinu og töfraði heilu veislurnar fram úr erminni. Síðar lágu leiðir okkar aftur saman þegar Guðný og Skafti keyptu Víkina og fluttu á Höfn, þá var ég svo heppin að fá að fylgja með í kaupunum og vann hjá þeim á Víkinni þar til þau seldu hana og fluttu í Hveragerði.
Margar og yndislegar minningar á ég frá þessum tíma sem ég vann hjá þeim. Ein af þeim er þegar ég og Helga vinkona vorum svaramenn þegar Guðný og Skafti giftu sig, þetta átti allt saman að fara fram í kyrrþey og enginn átti að fá fregnir af þessu. Auðvitað gátum við ekki setið á okkur að hrekkja þau aðeins. Þegar þau voru farin inn til sýsla skreyttum við bílinn aðeins, settum eina köku á húddið og bundum fullt af dósum aftan í bílinn. Við mættum auðvitað of seint í athöfnina fyrir vikið og fengum pínu augngotur frá verðandi hjónum og þá sprungum við úr hlátri og áttum mjög erfitt með að hætta að hlæja. Þau og Páll sýslumaður áttu fullt í fangi með að smitast ekki af okkur og skella upp úr líka.
Svo kláruðu þau athöfnina með okkur flissandi á bak við sig. Þegar við komum út frá sýsla þá segir Guðný hlæjandi „þið eruð nú meiri hálfvitarnir“, svo þegar þau sáu skreytta bílinn hrifsaði Guðný kökuna og þau strunsuðu inn í bíl og brunuðu burt með glamrandi dósir í eftirdragi sem þau vissu ekki af en heyrðu örugglega lætin. Við vinkonurnar horfðum á eftir þeim grenjandi af hlátri. Við vorum enn hlæjandi þegar við mættum í vinnuna tveimur tímum síðar og þá gátu þau ekki annað en skellt upp úr líka.
Minningarnar frá þessum tíma eru ótalmargar og hver annarri yndislegri. Það var frábært að vinna hjá þeim hjónum. Svo naut maður góðs af því að fá uppskriftir að hinu og þessu góðgæti sem hún töfraði fram. Ég held að ég nái næstum alveg að gera humarsúpuna hennar. Hún var frábær kokkur og eldaði bestu humarsúpuna að ógleymdri humarlokunni sem allir elskuðu ásamt svo mörgu öðru sem tæki heila bók að telja upp.
Ég ákvað að koma þeim á óvart og kíkti á þau á Borgarfjörð áður en ég flutti til Danmerkur, ég bjallaði í Lillu til að fullvissa mig um að þau væru heima, rifjaðar voru upp gamlir tímar og mikið hlegið.
Guðný var alveg einstök, skemmtileg, hörkudugleg og mikill húmoristi, algjör gimsteinn sem verður sárt saknað. Elsku Skafti, Lilla, Jóna, Bjössi og fjölskyldur, ykkur sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur, hlýtt faðmlag til ykkar allra.
Elsku Guðný, takk fyrir allt.
Guðrún Ragna (Gunna) Valgeirsdóttir.