Eva Karen Axelsdóttir
Eva Karen Axelsdóttir
Eva Karen Axelsdóttir: "Lífið snýst um samveru, samkennd, vináttu, virðingu og kærleika í garð nágrannans."

Í mínum bókum er samfélag byggt upp af fólki sem tekur sig saman og hjálpast að. Þú þekkir alla í blokkinni þinni eða götunni þinni með nafni og veist skil á öllum fjölskyldumeðlimum þeirra sem búa í þínu nærumhverfi. Nágranninn er ekki bara sá sem lánar þér egg einu sinni á ári heldur er hann sá sem hjálpar þér þegar þú þarft á því að halda. Hann ýtir þér úr snjóskafli þegar þú festir þig á bílaplaninu, veit þegar erfiðleikar eru á heimilinu og bankar upp á með heimaeldaða máltíð einfaldlega af því að hann getur það. Hann þekkir börnin þín með nafni og vinkar þeim þegar þau hjóla fram hjá á góðviðrisdegi, hann færir þér rabarbara úr garðinum og þú færir honum kartöflurnar sem þú hefur ræktað í þínum bakgarði. Nágrannarnir taka sig saman um jólin og ganga úr skugga um að enginn sé einn og ef einhver hefur ekki samastað er honum boðið að vera með. Lífið snýst um samveru, samkennd, vináttu, virðingu og kærleika í garð nágrannans.

Hvar og hvenær villtumst við af leið?

Í nútímasamfélagi hefur tíðkast að nánast enginn veit skil á fólkinu í sínu nærumhverfi, allir húka í sínu boxi – of uppteknir til að taka eftir nokkru öðru en eigin vandamálum. Þú þekkir ekki nágranna þinn með nafni og ferð frekar út í búð að kaupa heilan eggjabakka þegar þig vantar einungis eitt egg, mokar þig sjálfur úr snjóskaflinum þegar þú festir þig, ert einn og yfirgefinn þegar þú átt um sárt að binda því allir eru uppteknir á hamstrahjólinu sem lífið er orðið. Enginn þekkir börnin þín með nafni eða veit endilega úr hvaða húsi þau koma. Rabarbarinn hjá nágrannanum eyðileggst því það var of mikið af honum til að nýta upp í tíma og hellingur af fólki er einn um jólin því enginn vogar sér að bjóða því að vera með.

Köllum við það samfélag þegar lítill fjöldi af tæplega 347 þúsund manna þjóð tekur sig raunverulega saman?

Við þurfum að breyta þessu. Yfir í „allir með öllum og enginn er skilinn eftir“. Við þurfum að hjálpast virkilega að við að gera heiminn að betri stað til að vera á. Einmanaleiki er raunverulegt vandamál en ef samfélagið okkar væri raunverulegt SAMfélag myndi enginn upplifa sig eins einmana og raun ber vitni.

Í SAMfélagi eiga fleiri gleðileg jól, ekki bara fáir útvaldir. Allir hjálpast að við að lyfta andanum, koma saman og gera jólin gleðileg fyrir þá sem hafa minna á milli handanna og lífið tekur sannarlega fljótt breytingum til hins betra. Ekki bara fyrir þig heldur alla sem heild.

Myndir þú annars halda í fimm björgunarhringi fyrir þig sjálfan þegar þú þarft aðeins einn og láta þessa fjóra sem voru án björgunarhrings drukkna?

Höfundur er heilari og ráðgjafi. evakaren86@gmail.com

Höf.: Eva Karen Axelsdóttir