Sigríður Ásta fæddist 12. ágúst 1946. Hún lést 26. nóvember 2022. Útför hennar fór fram 7. desember 2022.

Ó, Jesús bróðir besti

og barnavinur mesti,

æ, breið þú blessun þína

á barnæskuna mína.

(Páll Jónsson)

Elsku Sigga mín, ég trúi því varla að nú sért þú farin frá okkur. Ég mun alltaf minnast stunda okkar sem við áttum saman, og ekki voru þær fáar. Frá því að ég var einungis nýburi og alveg að þínum dánardegi höfum við alltaf náð að smella saman. Ein af þeim skemmtilegri minningum sem við áttum var þegar ég var þriggja ára og við lékum í mömmuleik saman, ekki var ég þó barnið heldur þú. Þú fórst undir borð og snerir þig á alla vegu í leiknum til þess að ég myndi fá að njóta leiksins eins mikið og hægt var.

Ég hef alltaf litið á þig sem „auka“-ömmu, og ekki var það nú verra. Þú varst hlýjasta, góðhjartaðasta og yndislegasta manneskja sem nokkur maður hefur nokkurn tímann kynnst. Margar voru þær sælar minningar okkar saman, allt frá barnaleikjum og að því að spjalla saman um allt og ekkert. Eyddum við alltaf tíma saman þegar kostur var á, alltaf skárum við saman út laufabrauð og hittumst síðan á jóladag í jólakaffinu hjá ömmu. Ég gæti talið upp endalaust af þeim minningum okkar en þá held ég að ég væri komin með þykka og mikla bók.

Þú hefur alltaf sett hamingju annarra í forgang, séð til þess að öllum liði vel og hefðu það sem allra best. Alltaf varst þú tilbúin að fá fólk í heimsókn til þín, sama hvaða dagur var, alltaf tilbúin með kaffi á könnunni og bakkelsi eða nammi. Þú munt alltaf eiga sérstakan stað í hjarta mínu. Ég mun ætíð sakna þess að syngja og dansa með þér við jólatréð og taka sönginn við hvaða tilefni sem er.

Við sjáumst aftur, elsku Sigga mín.

Úlfhildur Elín Guðmundsdóttir.