— Með leyfi Michelle Thaller
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mannshugurinn gengur allur út á tengingar. Það er ekkert vit í stakri taugafrumu, hugsun eða staðreynd; það eru tengingarnar sem við gerum og undirliggjandi kortlagning okkar sem gerir okkur kleift að greina raunveruleikann

Mannshugurinn gengur allur út á tengingar. Það er ekkert vit í stakri taugafrumu, hugsun eða staðreynd; það eru tengingarnar sem við gerum og undirliggjandi kortlagning okkar sem gerir okkur kleift að greina raunveruleikann. Fyrir þúsundum ára, kannski við logandi varðeld, hljóta fyrstu sagnamennirnir að hafa uppgötvað þennan mátt mannshugans, sem fram að því hafði verið dulinn. Í dag hengjum við okkur á sögur líkt og heila okkar þyrsti í þær. Þær gera okkur kleift að koma skipulagi á þekkingu og láta hana ganga til annarra. Að segja sögur gæti hæglega verið það sem gerir okkur kleift að vera með fullri vitund.

Saga er för frá einum punkti til annars þar sem sett eru í samhengi þær staðreyndir og viðburðir, sem koma fyrir í henni. Opnaðu uppáhaldsbókina þína á hvaða síðu sem er og lestu fyrstu setninguna, sem þú sérð. Um leið ert þú kominn með aðgang að allri sögunni. Þú veist hvað gerðist á undan, hvaða persóna er að tala og hvernig allt mun fara. Heil tilvera getur falist í einum punkti.

Verið getur að raunveruleikinn sé ekkert nema tengingar. Kannski eru engir atburðir eða staðir, ekkert rúm eða tími eins og við skiljum þessa hluti. Heimurinn gæti verið líkur heilmynd (nei, þetta þýðir ekki að við lifum í einhvers konar tölvuhermiveröld), og skynjun okkar á tíma og rúmi gæti verið hluti af stærri heild, sem við vitum ekki af. Ég gerði heilmynd í háskóla: rauð ljósnæmu geli á glerplötu. Ég bjó til mynd af litlum vasa með blómum og dáðist að þrívíddaráhrifunum þegar ég beindi leysigeisla að glerinu og sneri plötunni minni til að sjá blómin frá ólíkum hliðum. Leiðbeinandinn minn sagði mér þá að brjóta glerplötuna með hamri. Þegar ég horfði í gegnum lítið, stökkt brot af upprunalega glerinu gat ég enn séð alla myndina. Hver einasti hluti heilmyndarinnar felur alla hina í sér.

Þarna kemur hin djúpa náttúra sagnanna fram. Okkar takmörkuðu heilar skynja undirliggjandi byggingu hreinnar tengingar með sama hætti og við hugsum um alheim, sem teygir sig út í tíma og rúm.

Ég kýs að sjá fyrir mér að heimurinn sé saga, sem sé til frá upphafi til enda, öll í einu. Bókin opnaðist á blaðsíðu þar sem augnablikið sem þú upplifir núna er að finna, en allar hinar síðurnar eru líka til. Alla söguna er að finna í hverjum punkti, jafnvel þeim örlitla punkti tíma og rúms sem þú ert að lesa þetta. Við erum öll saman í þessari sögu, þar er rúmið allt og tíminn allur. Reynum að sjá til þess að hún verði góð.

Dr. Michelle Thaller er stjörnufræðingur og vísindaskýrandi. Hún starfar við Goddard-geimferðamiðstöð bandarísku geimvísindastofnunarinnar, NASA.