Svo lengi sem fólk andar mun það tala, skrifa og segja sögur.
Sögur hafa verið til jafnvel frá því áður en maðurinn öðlaðist hæfnina til að segja þær. Þegar líf fólks fléttuðust saman og frumstæðar tilfinningar vöknuðu urðu án efa til alls konar sögur. Þegar samskipti manna hófust og félagsleg bönd urðu til varð skýrleiki þeirra meiri og þær urðu flóknari og smám saman kom í ljós hlutverk þeirra í að skemmta og fræða.
Alveg sama á hvaða stigi mannkyn hefur verið, sögurnar hafa alltaf verið okkur við hlið og orðið okkar besti og þrautseigasti félagi. Allt frá því við vorum nýfædd smábörn og byrjuðum að líkja eftir hljóðum höfum við hlustað grannt á sögur. Þær koma frá fjölskyldum okkar, nágrönnum, úr sveitum og bæ, úr bókum. Af þessum sögum lærum við um grundvallaratriði á borð við réttlæti, siði, eðli viskunnar og hvað það þýðir að trúa; við öðlumst skilning á góðu og illu, siðmenningu og listum, greind og fáfræði.
Þótt leiðirnar til að miðla þeim geti hafa breyst með tímanum er innri kjarni þessara sagna hinn sami. Á hverju stigi mannlegrar tilveru sjáum við svipuð þemu endurtaka sig. Að fæðast, eldast, veikjast og deyja; sorgin við að kveðja og gleði endurfunda: Reynsla sem allir eiga sameiginlega. En smáatriðin í því hvernig við nálgumst þessi þemu og segjum frá þeim þróast á ólíkum skeiðum og taka á sig ólíkar myndir, sem velta á aðstæðum á borð við bakgrunn, kynþátt og kyn.
Óteljandi einstakar sögur mynda í heild sinni sameiginlega sögu allrar mannlegrar þekkingar og tilfinninga. Sumar sögur eru langar, aðrar stuttar, og sumar eru óljósar og ókláraðar – en allar eru þær hluti af þróun okkar. Og þegar við ferðumst í gegnum lífið verðum við líka sögumenn. Og eftir því sem líf okkar þræðir spíralinn upp á við hækka sögur okkar flugið án afláts.
Fang Fang er rithöfundur og handhafi Lu Xun-bókmenntaverðlaunanna. Hún er höfundur Wuhan Diary: Dispatches From a Quarantined City.
(Michael Berry þýddi úr kínversku á ensku.)