Hver er besti knattspyrnumaður sögunnar? Svarið sem þú færð við þessari spurningu ræðst að miklu leyti af aldri viðkomandi. Ef hann fæddist fyrir árið 1960 (er sem sagt eldri en ég) eru yfirgnæfandi líkur á að svarið sé: Pelé

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Hver er besti knattspyrnumaður sögunnar?

Svarið sem þú færð við þessari spurningu ræðst að miklu leyti af aldri viðkomandi.

Ef hann fæddist fyrir árið 1960 (er sem sagt eldri en ég) eru yfirgnæfandi líkur á að svarið sé: Pelé.

Ef hann fæddist á tímabilinu 1960 til 1980 eru allar líkur á að svarið sé: Diego Maradona.

En sé viðkomandi fæddur eftir það er viðbúið að svarið verði annaðhvort Cristiano Ronaldo eða Lionel Messi.

Nú í árslok 2022 er Messi líklegasta svarið eftir framgöngu hans á heimsmeistaramótinu í Katar.

Samanburður eins og þessi er alltaf afstæður og unga kynslóðin í dag spyr einfaldlega: Ha, hver var þessi Pelé?

Í dag sjáum við hvert skref og hverja hreyfingu hjá Messi, Ronaldo og öðrum fremstu fótboltamönnum heims. Við fengum Maradona í beinum útsendingum frá HM 1986, 1990 og 1994.

Eldri kynslóðirnar sáu í sjálfu sér ekki mikið til Pelé, en heyrðu og lásu þeim mun meira um þennan brasilíska snilling.

Þegar Brasilía varð heimsmeistari 1970, með lið sem talið hefur verið það besta í sögunni og með Pelé sem besta mann keppninnar, sáum við aðeins stuttar fréttamyndir daginn eftir úrslitaleikinn.

En hvað sem öllum samanburði líður þá er einstakur maður fallinn frá. Pelé hafði gríðarleg áhrif á fótboltann og á líf fólks um allan heim. Það sést best á viðbrögðum heimsbyggðarinnar við andláti hans.