Tilgangsleysi „Venjulega hafa öll lógó einhvern tilgang en það er algjört tilgangsleysi á bak við þessi vörumerki.“
Tilgangsleysi „Venjulega hafa öll lógó einhvern tilgang en það er algjört tilgangsleysi á bak við þessi vörumerki.“ — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Vegfarendum brá í brún við upphaf árs 2022 þegar það leit út fyrir að tæknin væri að stríða umsjónarmönnum auglýsingaskilta borgarinnar. Skýringin reyndist vera sú að listamaðurinn Hrafnkell Sigurðsson hafði borið sigur úr býtum í samkeppninni…

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Vegfarendum brá í brún við upphaf árs 2022 þegar það leit út fyrir að tæknin væri að stríða umsjónarmönnum auglýsingaskilta borgarinnar. Skýringin reyndist vera sú að listamaðurinn Hrafnkell Sigurðsson hafði borið sigur úr býtum í samkeppninni Auglýsingahlé og sett upp verk í strætóskýlum og á öðrum skiltum á vegum fyrirtækisins Billboard.

Að þessu sinni eru það hins vegar verk myndlistarmannsins Sigurðar Ámundasonar sem munu prýða yfir 450 auglýsingaskilti á höfuðborgarsvæðinu dagana 1.-3. janúar. Verk hans voru valin úr tillögum fjörutíu umsækjenda en Auglýsingahlé er samstarfsverkefni Billboard, Y gallerís og Listasafns Reykjavíkur.

„Þetta eru gervilógó, lógó sem hafa enga merkingu. Venjulega hafa öll lógó einhvern tilgang en það er algjört tilgangsleysi á bak við þessi vörumerki,“ segir Sigurður um verkin en hann sýndi níu verk af þessari gerð á sýningunni What's Up, Ave Maria? sem sett var upp í Hafnarborg síðastliðið vor.

Úrkynjun úr öðrum heimi

Sigurður sýnir nokkrar útgáfur af þessum lógóverkum á auglýsingaskiltunum. „Annaðhvort eru þetta lógóin ein og sér eða lógó í umhverfi, sem er ýmist tilkomumikil náttúra eða arkitektúr. Það gefur í skyn að þetta sé eins og auglýsingaherferð. Svo eru líka fígúratív verk með lógóum þar sem við erum kannski komin út í meiri expressjónisma. Lógóin breytast í fígúrurnar og úrkynjunin er eins og úr einhverjum öðrum heimi. Þetta fjarlægist svolítið okkar skilning á auglýsingum.“

Hann segir það hafa verið heppilegt að hafa verið að vinna í svolítinn tíma að verkum sem smellpassa inn í þetta auglýsingatengda verkefni. „Ég er að vona að fólk tengi milli myndlistar og auglýsinga. Ég er að vinna þar á mörkunum.“

Alls mun Sigurður sýna um fjörutíu til fimmtíu verk sem öll eru teikningar í grunninn en listamaðurinn segist þó frekar líta á þau sem málverk eða eitthvað þeim skylt.

„Elstu verkin eru kannski tveggja ára gömul en ég er enn að vinna að þeim nýjustu. Það verður mikið af glænýjum verkum. Ég er heldur ekki búinn með þessa seríu svo ég mun halda áfram með hana eftir þetta verkefni.“

Hann hefur haft í nógu að snúast undanfarið við að koma verkunum á rétt form fyrir LED-skjái auglýsingaskiltanna. „Pabbi minn er grafískur hönnuður og hann er að hjálpa mér að setja myndirnar upp, klippa þær til, taka ljósmyndir af þeim og fínpússa þær þannig að þær passi í þetta format.“ Verkunum verður síðan raðað í röð sem Sigurður segir að sé nokkuð handahófskennd. Þeim verður síðan róterað þannig að hvert verk verði á skjánum í átta sekúndur.

Sigurður mun einnig sýna í Ásmundarsal í janúar ásamt myndlistarmanninum Gunnari Jónssyni. Þar segir hann að mestu um annars konar verk að ræða en þó er eitt verk sameiginlegt með verkefnunum tveimur.

Mislukkuð samskipti

Það er ekki bara myndlist sem Sigurður fæst við um þessar mundir heldur er hans fyrsta leikrit, Hið ósagða, í sýningu í Tjarnarbíói. Þar er hann er bæði höfundur og leikstjóri og kemur einnig fram í verkinu ásamt góðum hópi leikara.

Spurður hvort finna megi einhverja þræði sem sameini þessar ólíku listgreinar hjá honum segir Sigurður: „Ég held að öll listin mín, hvort sem það er myndlist eða leikhús eða hvað það er, fjalli alltaf um samskipti og eiginlega mislukkuð samskipti. Ég veit ekki hvort mislukkuð er rétta orðið en þessi lógó eru ekki að vísa í neitt og venjulega eiga þau að vísa í eitthvað, stofnun, fyrirtæki eða vöru. Þau eru oft mjög háfleyg þessi lógó, þau hafa dramatískt landslag í kringum sig. Þau eru að upphefja sig en þau hafa ekkert að segja.“

Leikritið fjallar að hans sögn einnig um misheppnuð samskipti. „Samskipti eru svo rosalega stór partur af mannkyninu og daglegu lífi en það er líka svo rosalega ófullkomið, ómótað eða óþróað fyrirbæri. Mannkynið er ekki alveg búið að negla það. Við erum ekki jafn góð í samskiptum og við höldum að við séum. Við höfum ekki alveg orðin til þess að ná utan um eða lýsa því hvernig okkur líður eða við þorum kannski ekki að útskýra það. Það er svo mikið sem veltur á samskiptum og í flestum tilfellum á einhver misskilningur sér stað eða einhverjar lokaðar tilfinningar.“

Hann tekur dæmi af því hvernig hversdagsleg samskipti geta leikið lykilhlutverk í heimsmyndinni. „Ef foreldrar valdamikils auðkýfings, eins og til dæmis Pútíns, kunna ekki að segja við hann að þau elski hann þá hefur það svo mikil áhrif á alla. Ef hann á slæm samskipti við ástvini sína hefur það áhrif á sálræna lífið hans og sálræna lífið hans hefur áhrif á pólitískt landslag Evrópu. Alls konar svona hversdagslegir hlutir, eða sem við höldum að séu hversdagslegir, verða stærri ef maður er til dæmis pólitískur leiðtogi. Þetta helst allt í hendur.“

Öld sjálfsmyndarinnar

Lógóin gera einnig tilraun til þess að tjá eitthvað en misheppnast það. Sigurður segir það tengjast hugmyndum um „öld sjálfsmyndarinnar“ og „öld upplýsinganna“.

„Það eru bara 22 ár liðin af öldinni en þetta virðast vera mjög sterk lykilorð fyrir þennan tíma, upplýsingar og sjálfsmynd. Lógóin eru í raun og veru hvort tveggja. Þetta eru upplýsingar og þetta er líka sjálfsmynd einhvers fyrirtækis eða hugmyndafræði. En bæði upplýsingarnar og sjálfsmyndin komast ekki til skila. Svo þetta fellur algjörlega um sjálft sig,“ segir hann.

„Þetta fjallar svolítið um merkingarleysið sjálft eða efann. Efinn er svolítið merkilegt og mikilvægt fyrirbæri. Ef það er einhver meining með þessari tilvist þá tel ég að sú meining sé efinn eða óvissan. Þetta er ekki staður sem við komum á til þess að finna svarið, þetta er frekar ein stór spurning, þessi heimur.“

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir