Þegar móðir mín var eins árs fór fjölskylda hennar um borð í djúnku og yfirgaf Kína fyrir fullt og allt. Þau voru á leið til Filippseyja þar sem amma mín heillaði hana á þeirra nýja heimili með grípandi sögum um drukkin goð og gyðjur og flökkuskáld, vitra kjána og talandi dýr, um gula keisarann, Kínamúrinn og aðrar dýrðir hinnar stórkostlegu fimm þúsund ára gömlu siðmenningar, keisaradæmisins, sem kallað hefur verið miðríkið.
Þegar ég var að alast upp í West Lafayette í Indiana sagði móðir mín mér sömu sögur. En hún sagði mér einnig frá skelfilegri æsku meðan á hersetu Japana á Filippseyjum stóð. Hún lýsti japönskum hermönnum sem stungu kornabörn með byssustingjum og neyddu einn af frændum hennar til að þamba svo mikið vatn að hann sprakk. Hún rakti hvernig foreldrar hennar dulbjuggu hana sem dreng – ég áttaði mig aðeins á því löngu síðar að það hefði verið vegna þess að þau höfðu heyrt svo margar hryllilegar sögur af því hvað japanskir hermenn hefðu gert við ungar stúlkur. Og hún lýsti gleðideginum þegar Douglas MacArthur hershöfðingi frelsaði Filippseyjar og hún og vinir hennar hlupu á eftir bandarísku jeppunum, hrópandi af fögnuði um leið og hermenn hentu út Spam-dósum.
Þegar ég eignaðist dætur mínar tvær sagði ég þeim allar sögurnar sem móðir mín hafði sagt mér. Þegar þær voru 13 og 16 ára skrifaði ég bók sem hét „Battle Hymn of the Tiger Mother“ um hvernig ég hefði reynt að ala þær upp með sama hætti og foreldrar mínir hefðu alið mig upp og hvers vegna ég ætlaðist til svona mikils af þeim, endursagði söguna um æsku dætra minna frá mínu sjónarhorni. Bókin var að hluta til ástarbréf, að hluta afsökun, að hluta réttlæting. Ég átti aldrei von á því að sögurnar mínar myndu fá hárin til að rísa á jafn mörgu fólki. En sögur geta haft ólíka merkingu fyrir ólíku fólki. Og hafa lag á því að öðlast sitt eigið líf, verða kveikjan að fleiri sögum og andsögum og yfirsögum.
Við segjum sögur af ótal ástæðum: til að gleðja og eyðileggja, til að vopna og afvopna, til að hugga og kalla fram hlátur. Þessa dagana elska ég að fara með fyrir nemendum mínum sögur af höfnun og auðmýkingu frá því ég var yngri – hræðilegum, fullkomnum vonbrigðum, sem mig svíður enn undan í andlitinu. Sögur geta brúað gjár, tengt okkur í okkar sameiginlega fáránleika. Innan um utnaðakomandi segjum við sögur til að varðveita, til að koma á framfæri stolti milli kynslóða, til að reisa ættarveldi merkingar.
Amy Chua er lagaprófessor við Yale-háskóla og rithöfundur. Nýjasta bók hennar er Political Tribes: Group Instinct and the Fate of Nations.