[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég segi sögur vegna þess að á streymisveitunni Twitch er ætlast til þess að ég sé skemmtikraftur. Á yfirborðinu stillir fólk á streymið mitt til að horfa á mig tefla, en hefði ég enga sögu að segja um leikina, sem ég leik, gæti ég eins verið tölvuforrit

Ég segi sögur vegna þess að á streymisveitunni Twitch er ætlast til þess að ég sé skemmtikraftur. Á yfirborðinu stillir fólk á streymið mitt til að horfa á mig tefla, en hefði ég enga sögu að segja um leikina, sem ég leik, gæti ég eins verið tölvuforrit. Ég þarf að ýta undir – eða búa til – dramatíkina í skákinni til að halda athygli aðdáenda minna og ýta undir meiri áhuga.

Í streyminu mínu segi ég sögur um skák, skákmót, sögulega viðburði og viðureignir. Ég geri sjálfan mig líka að persónu í sögu skákarinnar. Að minni reynslu er það nú einu sinni þannig að aðeins nokkur hundruð manns hafa þolinmæði fyrir þurri greiningu á skákfléttum, en hundruð þúsunda vilja heyra af því þegar andstæðingur þinn var alltaf að sparka í þig undir borðinu eða var svo hræðilega andfúll að þú gast ekki einbeitt þér. Þannig verður saga um skák að mannlegri sögu með víðari skírskotun. Jafnvel fólk, sem veit ekki mikið um skák, getur tengt við skákmann, sem þurfti að glíma við óviðkunnanlegan andstæðing, upplifði sársaukafullt tap eða tókst að knýja fram dramatískan sigur eftir að hafa lent undir.

Fyrir þau okkar sem elskum skák hefur það að segja sögur af viðureignunum annan tilgang. Endursagnir af skákmótum og reynslu skákmanna gefur þeim, sem eru í skákklúbbum heima í héraði, tækifæri til að ímynda sér heim utan hins fámenna hóps þeirra reglulegu andstæðinga. Þeir geta séð sjálfa sig fyrir sér sem hluta af risastóru alþjóðlegu samfélagi, sem í er litríkt, hæfileikaríkt fólk sem talar önnur tungumál og kemur frá ólíkri menningu, en getur samt talað saman í gegnum leikina á skákborðinu.

Sögurnar sem ég segi um skák kunna að hafa altæka skírskotun, en þær spretta úr mjög persónulegum grunni. Þegar ég tala um fólkið sem kenndi mér, kom mér á óvart, sýndi mér eitthvað sérstakt í skákinni, viðheld ég einnig tengingunni við þann hluta af mér sem elskar þessa íþrótt. Þessar sögur eru mér hvatning til að leita að nýjum hugmyndum og finna meiri fegurð í fléttunum á skákborðinu, uppgötva nýja hluti í íþróttinni – og um sjálfan mig.

Hikaru Nakamura er stórmeistari í skák, einn af bestu hraðskákmönnum heims, fimmfaldur bandarískur skákmeistari og vinsælasti skákmaðurinn á Twitch og YouTube.