Það er ákveðin hefð fyrir því að rýna í árið sem er að líða. Gera það upp eins og gárungarnir kalla það. Hvað það er sem mér þykir athyglisvert og hvað síður. Staðreyndin er sú að ég er alþingismaður, í auga stormsins alla daga. Baráttan við sérhagsmunaöflin er barátta mín og Flokks fólksins hvern einasta dag. Baráttan gegn misskiptingu, óréttlæti og fátækt er hjarta Flokks fólksins.
Í upphafi skyldi endinn skoða. Því ætla ég að byrja á að nefna þann heiður sem mér og Flokki fólksins hefur verið sýndur með því að tilnefna mig sem manneskju ársins 2022. Hvernig ber mér að taka slíkri tilnefningu og hvers vegna? Ég tek henni svo sannarlega fagnandi. Ég lít á tilnefninguna sem sigur Flokks fólksins og viðurkenningu á verkum okkar. Mér finnst þetta líka sýna að við höfum markað okkur sess og hlotið viðurkenningu á því að við erum heil og sönn. Viðurkenningu á því að rödd Flokks fólksins og aðgangur hans að æðsta ræðustóli landsins er ómetanlegur fyrir þá sem bágast standa í samfélaginu.
Við stöndum frammi fyrir risavaxinni áskorun í áframhaldandi baráttu gegn allri þeirri óréttlætanlegu örbirgð sem svo allt of margir mega þola í boði stjórnvalda. Það er óumdeilt hvað mig varðar að þegar ég finn alla þessa hvatningu og hlýju þá margfaldast ég að afli og baráttuþrek mitt brýst fram sem aldrei fyrr. Eins og við segjum í Flokki fólksins: „Fólkið fyrst, svo allt hitt.“
Fátækt fyrr og nú
Fátækt er alls ekki nýlunda á Íslandi. Fyrr á öldum var hún gjarnan afleiðing slæms árferðis, náttúruhamfara og harðinda. Sum árin ríkti skelfileg hungursneyð víða á landinu þar sem þúsundir sultu til bana. Mörg býli lögðust í eyði, illa klætt og vannært fólk flosnaði upp og hraktist á vonarvöl með börnin sín á milli bæja í von um bjargir, sem oftar en ekki brugðust vegna þess að fátækt var nánast orðin landlæg.
Þá, eins og nú, valdi enginn sér það hlutskipti að vera fátækur og upp á sveitunga sína eða samlanda kominn. Reginmunurinn er hins vegar sá að nú lifum við í landi allsnægta í stað örbirgðar. Það er hreint út sagt til háborinnar skammar að í einu ríkasta landi heims sjái stjórnvöld ekki sóma sinn í að rétta bláfátæku fólki hjálparhönd þegar neyðin knýr dyra. Hér eru engar náttúruhamfarir eða harðindi sem réttlætt geta slíkt kaldlyndi.
Ég skil ekki hvernig Íslendingar geta gert tilkall til þess að teljast fyrirmyndarríki með réttlæti og mannúð í hávegum þegar reyndin er öll önnur. Stjórnvöld láta sér í léttu rúmi liggja þótt fólk eigi hvorki í sig né á og einu gildir þótt fátækt fólk eigi ekki í nein hús að venda. Það sem ætti að vera forgangsmál er orðið algert aukaatriði. Það virðist nefnilega óskaplega auðvelt að snúa blinda auganu að bágindunum sem þó blasa við allt um kring. Hugsanlega er skýringin sú að almennt hafa kjörnir fulltrúar aldrei þurft að reyna fátækt á eigin skinni og hafa því ekki hugmynd um hvernig það er að búa við sára neyð og allt það vonleysi og vanmátt sem því fylgir. Þeim er því miður ómögulegt að setja sig í þessi spor.
Grímulaus vanræksla stjórnvalda gagnvart fátæku eldra fólki
Það er erfitt að tala um meðferð þingmanna meirihlutans á sárafátæku eldra fólki sem hefur ekkert annað lífsviðurværi en berstrípaðar greiðslur Tryggingastofnunar ríkisins. Þrívegis fengu þessir þingmenn tækifæri til að kjósa með breytingatillögu Flokks fólksins sem óskaði eftir 126 milljónum króna fyrir 2.080 bláfátæka eldri borgara í sárri neyð. Þrívegis sögðu þau nei og köstuðu þessum hópi, sem lifir langt undir fátæktarmörkum, á milli skips og bryggju um jólin. Þau höfðu meiri áhyggjur af því að Flokkur fólksins birti niðurstöður atkvæðagreiðslunnar á samfélagsmiðlum en af velferð þessa hóps sem byggði upp samfélagið og þarf nú á hjálp Alþingis að halda. Margir í þessum hópi eru fullorðnar konur sem vörðu starfsæviárum sínum í hið vanþakkláta starf heimavinnandi húsmóður. Gamlar konur í dag sem eiga engin réttindi úr lífeyrissjóði en eru kirfilega múraðar inni í rammgerðri fátæktargildru stjórnvalda. Þakklætið sem stjórnvöld sýna þeim fyrir ævistarfið er vanþakklæti sem kallar fram vonleysi og kvíða.
Með sérhagsmuni að leiðarljósi
Það vefst ekki fyrir ríkisstjórninni að lækka bankaskatt um milljarða króna hjá moldríkum fjármálastofnunum sem nú, í óðaverðbólgu og okurvöxtum, maka krókinn sem aldrei fyrr á kostnað skuldsettra heimila og fyrirtækja. Það vafðist heldur ekki fyrir þeim að lækka veiðigjöldin á stórútgerðina eins og raunverulega var gert á síðasta kjörtímabili. Milljarðar á milljarða ofan eru hiklaust fluttir í yfirfulla vasa þeirra ríku í stað þess að forgangsraða þessum fjármunum fyrir fólkið sem svo sárlega þarfnast hjálpar.
Það hríslast um mig kjánahrollur þegar ríkisstjórnin ber því við að ekki sé hægt að gera allt fyrir alla. Þá hugsa ég til þess hversu hiklaust stjórnarflokkarnir veittu fjármálaráðherra heimild í fjáraukalögunum nú rétt fyrir jólin, upp á 6 þúsund milljónir króna (6 milljarða) til að fjárfesta í glæsihöll Landsbankans við Austurbakka. Það skyldi þó aldrei vera að einhverjir ráðherranna ætli að koma sér fyrir í glæsiráðuneyti með útsýni yfir hafið?
Það er óumdeild skylda stjórnvalda að tryggja öllum þegnum landsins grundvallarmannréttindi. Landið okkar er með auðugri löndum veraldar og meira en nóg væri fyrir okkur öll ef fjármunum væri forgangsráðað með fólkið fyrst í huga. Það er kominn tími til að taka á þessari gegndarlausu spillingu og bruðli með almannafé. Löngu orðið tímabært að draga fram í dagsljósið hvernig sérhagsmunagæsla og einkavinavæðing stjórnvalda ræður hér lögum og lofum á meðan stór hluti almennings berst í bökkum.
Köllun Flokks fólksins
Ég hóf þátttöku í stjórnmálum vegna þess að ég brann af löngun til þess að láta gott af mér leiða. Flokkur fólksins var eingöngu stofnaður til að berjast fyrir fólk sem á bágt í samfélaginu og losa það úr manngerðri fátæktargildru stjórnvalda. Þeir ríku geta séð um sig sjálfir með dyggri sérhagsmunagæslu ríkisstjórnarinnar. Það sjá allir sem sjá vilja hvernig ráðamenn þjóðarinnar forgangsraða fjármunum fyrir allt annað en fólkið fyrst.
Ég leyfi mér enn að trúa því að í okkar vellauðuga landi verði okkur kleift að búa svo um hnútana að hér verði til fyrirmyndarsamfélag þar sem enginn þarf að líða skort eða hafa áhyggjur af framtíðinni. Þar sem allir hafa fæði, klæði og öruggt húsaskjól. Samfélag sem byggist á almannahagsmunum umfram sérhagsmuni. Samfélag sem virðir grundvallarmannréttindi í hvívetna.
Með þessa hugsjón ætlum við í Flokki fólksins að mæta nýju ári. Við erum hvergi smeyk við að takast á við erfiðar áskoranir. Um leið erum við þakklát fyrir þann mikla stuðning og hlýhug sem við höfum mætt á árinu sem er að líða.Kæru landsmenn! Ég óska ykkur öllum gæfu og farsældar á nýju ári.