Janúar Umbrot í neðansjávareldfjallinu Hunga Tonga-Hunga Ha’apai í Suður-Kyrrahafi náðu hámarki 15. janúar eftir að hafa verið að magnast upp vikum saman. Gosið í fjallinu olli flóðbylgjum í löndum við Kyrrahafið, þar á meðal á Nýja-Sjálandi, í Japan, Chile og Bandaríkjunum. Þrír létust hið minnsta og öll hús eyðilögðust á eynni Mango. Vísindamenn segja að gosið hafi hrundið af stað fátíðri höggbylgju, sem fór um heiminn á einum og hálfum sólarhring. Áhrif af sprengigosinu voru mikil og mátti heyra hljóðbylgjuna vegna þess allt til Alaska. Gosið var það kraftmesta sem mælt hefur verið með nútímatækni og var öflugra en nokkurt gos eða kjarnorkuvopnatilraun undanfarin 100 ár. Konungshöllin í höfuðborg Tonga, Nukualofa, var þakin öskulagi eftir gosið í neðansjávarfjallinu.