Frá og með 16. janúar munu gestir í Feneyjum þurfa að skrá sig fyrir fram og borga gjald fyrir að heimsækja borgina.
Frá og með 16. janúar munu gestir í Feneyjum þurfa að skrá sig fyrir fram og borga gjald fyrir að heimsækja borgina. — Francesca Volpi fyrir The New York Times
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Stríð, hvaða gagn gerir það?“ söng Edwin Starr fullum hálsi árið 1970 – eða „War, what is it good for?“ eins og það hljómaði á ensku. Svarið er það sama í dag og fyrir rúmum 50 árum

Masha Goncharova

„Stríð, hvaða gagn gerir það?“ söng Edwin Starr fullum hálsi árið 1970 – eða „War, what is it good for?“ eins og það hljómaði á ensku.

Svarið er það sama í dag og fyrir rúmum 50 árum. „Nákvæmlega ekkert!“ eða „Absolutely nothing!“ Þrátt fyrir það réðst Vladimír Pútín, forseti Rússlands, að tilefnislausu inn í Úkraínu og er talið að 40 þúsund almennir borgarar hafi nú þegar látið lífið og 30 milljónir til viðbótar misst heimili sín. Eftir því sem átökin teygja sig inn í veturinn hafa Rússar tekið upp þá hernaðaraðferð að ráðast á lykilinnviði í Úkraínu og hafa milljónir manna verið án rafmagns, hita og vatns langan tíma í senn. En Pútín fær ekki flúið söguna og innri klofningur og fækkun íbúa í Rússlandi sýna að þegar kemur að trausti og einingu hans eigin þjóðar kann hann þegar að hafa tapað.

Utan stríðs Rússa var fátt til að hugga sig við árið 2022. Í júní sneri Hæstiréttur Bandaríkjanna við úrskurðinum í máli Roe gegn Wade með þeim afleiðingum að rétturinn til fóstureyðinga er ekki lengur stjórnarskrárvarinn í Bandaríkjunum; í ágúst ollu flóð hörmungum í mörg hundruð þorpum í Pakistan, 1.500 manns létu lífið og líf 33 milljóna manna fór úr skorðum; í september lést síðan Elísabet II. drottning, sem hafði verið kjölfesta bresku konungsfjölskyldunnar og laus við uppnám og uppákomur ólíkt öðrum í fjölskyldunni um leið og pundið féll í sögulegar lægðir gagnvart bandaríkjadollar. Þegar leið að lokum ársins hækkuðu seðlabankar um allan heim vexti til að hemja verðbólgu og vöruðu við því að samdráttur væri líklegast í vændum um allan heim.

Nú er árið 2023 komið með okkur í sigtið. Í vændum er allt frá því að stærsti vindmyllugarður heims verði tekinn í notkun í Japan til 100 ára afmæla Walt Disney-fyrirtækisins og Warner Brothers og hátíðar til að hylla hundinn í Nepal. Hér á eftir fylgja dæmi um þrautseigju og útsjónarsemi í verki.

JANÚAR

Króatía, 1. janúar: Tæpum áratug eftir inngönguna í Evrópusambandið ætla Króatar að taka upp evru og verða hluti af Schengen-svæðinu. Króatar ætla ekki að láta yfirvofandi samdrátt á evrusvæðinu stöðva sig og vonast til að upptaka myntarinnar og innganga í Schengen-svæðið, sem opnar fyrir ferðalög án áritunar, verði til þess að laða ferðamenn í auknum mæli að strandlífinu við Adríahafið.

Ítalía, 16. janúar: Í Feneyjum verður byrjað að innheimta gjald af ferðamönnum, sem koma aðeins til borgarinnar til að dvelja í nokkra klukkutíma, en gista ekki yfir nótt. Embættismenn borgarinnar hafa verið að undirbúa innleiðingu gjaldsins, sem á að takmarka fjölda skammtímatúrista, sem valda miklu álagi á viðkvæma innviði borgarinnar. Gjaldið verður allt frá þremur til tíu evra á dag og veltur upphæðin á því hvað mannmargt er í borginni þann daginn.

Bandaríkin, 23. janúar og 4. apríl: Tveir risar í Hollywood verða 100 ára. Það eru auðvitað Warner Brothers og Disney! Kvikmyndaverin hafa bæði í hyggju að mikið verði um dýrðir á öllum vígstöðvum, allt frá skemmtigörðum þeirra til tölvuleikja, sjónvarpsstöðva og streymisþjónusta út árið.

Febrúar

Ástralía, 17. febrúar til 5. mars: Grípið regnbogafánann og skjótið tappanum úr kampavínsflöskunni: WorldPride er á leið til Sydney. Búist er við hálfri milljón manna á gleðihátíðina, sem mun standa í 17 daga. Ekki finnst þó öllum þeim sem eru í hinsegin samfélaginu að þeir séu aufúsugestir. Sumir athugasemdaglaðir hafa sagt að gleðidagarnir séu fyrir elítuna og vísa þar til miðaverðsins. Aðgangur að þriggja daga mannréttindaráðstefnu kostar til dæmis 215 þúsund krónur og ódýrustu miðar á partíið á Bondi-ströndinni kosta 25 þúsund krónur.

Bandaríkin 12. febrúar: Næstum fimm árum eftir að hún kom síðast fram á Grammy-verðlaunahátíðinni 2018 snýr Rihanna – sem réð lögum og lofum frá fyrsta áratug aldarinnar þar til síðasta platan hennar, Anti, kom út 2016 – aftur á sviðið til að taka þátt í þeim tónlistarviðburði sem hvað mest er horft á í heiminum. Hér er um að ræða hálfleik í ofurskálinni, úrslitaleiknum í bandaríska fótboltanum eða ruðningi. Hér þykir fyrirtækið Apple Music, sem tekur nú við af Pepsi sem helsti bakhjarl hálfleiksuppákomunnar, aldeilis hafa slegið sér upp.

Mars

Bandaríkin, 12. mars: Klukkum verður flýtt um eina klukkustund í Bandaríkjunum og verður það kannski í síðasta skipti. Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í mars á þessu ári lög, sem kennd eru við sólarvörn, og hefðu í för með sér að árstíðabundnar breytingar á klukkunni yrðu úr sögunni. Marco A. Rubio, repúblikani frá Flórída, var meðal stuðningsmanna laganna. Hann sagði að við þessa breytingu myndi draga úr árekstrum í umferðinni og slysum, ránum myndi fækka um 27 af hundraði og orkunotkun minnka.

Apríl

Frakkland, Spánn og Bandaríkin, 8. apríl: Í tilefni af því að 50 ár verða liðin frá andláti listamannsins Pablos Picassos munu söfn um allan heim taka þátt í viðburði sem nefnist „Hyllum Picasso 1973-2023“. Skipuleggjendur eru Museé National Picasso í París og Bernard Ruiz-Picasso, barnabarn listamannsins. Meðal sýninga af þessu tilefni verða „Picasso 1969-72: Endir upphafsins“ í Picasso-safninu í Antibes (8. apríl til 25. júní), „Picasso hinn ungi í París“ í Guggenheim-safninu í New York (12. maí til 7. ágúst) og „Picasso gegn Velasquez“ í Casa de Velasquez í Madríd (september til nóvember).

Maí

Bretland, 6. maí: Karl III., sem eitt sinn lýsti því að eiga fyrir höndum að verða kóngur sem „hræðilega óvæginni“ lífsreynslu, verður krýndur í athöfn í Westminster Abbey. Buckingham-höll hefur gefið til kynna að krýningin muni verða stutt – rúmur klukkutími – og látlausari en krýning móður hans sem stóð í næstum þrjár klukkustundir að viðstöddum átta þúsund hefðarmönnum.

Júní

Egyptaland, 30. júní: Áætluð lok fyrsta þáttarins í að reisa nýja stjórnsýsluhöfuðborg Egyptalands. Helstu stjórnarstofnanir landsins verða þar til húsa austur af Kaíró. Framkvæmdin á að kosta 30 milljarða dollara. Þarna eiga að vera störf og híbýli fyrir íbúa Kaíró sem er að sprengja allt utan af sér vegna mannmergðar auk þess að vera vettvangur metnaðarfullra áætlana á borð við ólympíuþorpið, sem yrði næststærsta íþróttasvæði í Afríku og hluti af umsókn Egyptalands um að fá að halda Ólympíuleikana árið 2036.

Júlí

Litháen, 11. til 12. júlí: Atlantshafsbandalagið heldur leiðtogafund aðildarríkjanna 30 í Vilnius, sem er aðeins 220 km frá landamærum Rússlands. Þetta verður einn umfangsmesti leiðtogafundur sem haldinn hefur verið í Eystrasaltsríkinu og mun kosta um 30 milljónir evra (4,5 milljarða króna).

Jamaíka, 24. til 28. júlí: Alþjóðahafsbotnsstofnunin mun gefa út alþjóðlegar reglur um djúpsjávarnámagröft. Þetta er ört vaxandi grein og snýst meðal annars um að nema nikkel, sem er mikilvægt í smíði rafgeyma, sem notaðir eru í mörgum rafbílum. Samtök Kyrrahafsríkja, vísindamanna og samtaka á borð við Greenpeace hafa sakað Alþjóðahafsbotnsstofnunina um að semja reglurnar í of miklum flýti og vilja að bann verði sett á greinina með þeim rökum að þessi námagröftur muni eyðileggja einhver viðkvæmustu vistkerfi heims.

Ágúst

Heimurinn: Fjórir dómarar á vegum Airbnb munu velja 100 sérviskulegustu heimilishugmyndirnar úr víðri veröld. Bakhjarl þessa leiks er OMG!-sjóður Airbnb. Í keppninni verða 100 manns valdir og munu fá 100 þúsund dollara hver til að hanna „sturlaðasta stað á jörðu“. Nokkrir hafa verið valdir úr nú þegar, þar á meðal kartöfluhótel í Idaho og útilegurúta í Portúgal, sem hönnuð er í anda sjöunda áratugarins.

Finnland, 23. til 25. ágúst: Meistarar í keppni í loftgítarleik – gítarleik án gítars – hér og þar um heiminn munu safnast saman í Oulu til að keppa um heimsmeistaratitilinn í loftgítarleik. Keppnin hefur verið haldin síðan 1966 og í fyrra komu rúmlega 3.500 áhorfendur. Eru fleiri heimsmeistaramót haldin í Finnlandi? Takk fyrir að spyrja. Finnar halda einnig heimsmeistaramótið í mýrarbolta, heimsmeistaramótið í að grýta farsímum og heimsmeistaramótið í að ríða rugguhestum, svo eitthvað sé nefnt.

September

Bandaríkin: Nemendur við sjálfstæða námsbraut Whitney-safnsins fyrir listamenn, sagnfræðinga og safnstjórnendur munu eiga þess kost að hefja nám í ótrúlegri skólastofu, þökk sé gjöf frá dánarbúi listamannsins Roy Lichtenstein. Um er að ræða rúmlega 800 fermetra vinnustofu listamannsins á þremur hæðum í Greenwich Village í New York. Þar bjó Lichtenstein og starfaði þar til hann lést árið 1997.

Bandaríkin, 24. september: OSIRIS-REX, fyrsta geimflaug Bandarísku geimvísindastofnunarinnar, NASA, sem send hefur verið til að safna sýnum á loftsteini, mun snúa aftur til jarðar. Vísindamenn við tilrauna- og þjálfunarstöð NASA í Utah mynu rannsaka ryk og steina sem OSIRIS-REX safnaði á loftsteininum Bennu í þeirri von að verða einhvers vísari um sólkerfi okkar í árdaga og áhrif af hrapi loftsteina á jörðina í framtíðinni.

Október

Suður-Afríka, 18. til 30. október: Keppendur í þolíþróttum munu leggja leið sína til Kouga í héraðinu Eastern Cape í Suður-Afríku til að taka þátt í heimsmeistaramótinu í ævintýrakeppni, Adventure Racing World Championship, sem nú verður haldin í Afríku í fyrsta skipti. Keppt verður á fjallahjólum, hlaupum á stígum, kajakróðri á ám og ratleikjum um leið og tekist er á við breytilegt loftslag og dýralíf. Gætu keppendur til dæmis rekist á ljón, hlébarða og nashyrninga í Kouga. Sigurvegarinn fær sjö milljónir króna (50 þúsund dollara) í verðlaun og losnar við að borga skráningargjald fyrir keppnina á þarnæsta ári.

Nóvember

Sameinuðu arabísku furstadæmin, 6. til 17. nóvember: Heimsins fyrsti vetnisknúni spaðabátur mun halda í sitt fyrsta „flug“ (eða er það „sigling“?) á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Farkosturinn, sem kallaður er Þotan, getur flutt allt að 12 farþega og útblásturinn er enginn. Svissneskt sprotafyrirtæki er á bak við Þotuna og hyggst hefja markaðssetningu á henni í Dúbaí fyrir einstaklinga og hótel síðar á árinu.

Nepal: Tihar-hátíðin í Nepal stendur í marga daga. Þar er hinu góða hampað gegn hinu illa líkt og á Diwali, hinni indversku hátíð ljósanna. Annar dagur hátíðahaldanna – Kukur Tihar – er helgaður hundum, sem eru taldir helgir sendiboðar Yarma, guðs hinna framliðnu. Þann dag eru heimilis- og flökkuhundar í Nepal baðaðir, gefið gott að éta og blómakransar úr gullfíflum lagðir um hálsa þeirra.

Desember

Úganda, 7. til 10. desember: Sótt hefur verið að raftónlistarhátíðinni Nyege Nyege en nú er ljóst að ekki er öll nótt úti enn. Hátíðin er haldin árlega á bökkum Nílar. Henni var aflýst 2020 og 2021 vegna kórónuveirunnar. Þing Úganda bannaði hátíðina á þessu ári á þeirri forsendu að hún ýtti undir siðleysi. Nú hefur verið leyft að hátíðin verði haldin á næsta ári eftir að aðstandendur hennar settust niður með ráðherra siðgæðis og heilinda í Úganda og settu saman reglur um hátíðarhaldið þar sem meðal annars er kveðið á um lágmarksaldur og klæðaburð.

Japan: Stærsta sameinaða vindorkuver og orkugeymsla Japana á hafi úti mun komast í gagnið. Verið er undan ströndinni í Ishikari-flóa í Hokkaido og er kennt við flóann. Tekið hefur 15 ár að reisa vindorkuverið og er það eitt af tugum slíkra vera, sem ætlað er að virkja hvassviðrið í Japan. Japanar leggja nú aukið kapp á að finna hreinar orkulindir eftir að hafa gengið í gegnum orkuskort í fyrsta skipti í hitabylgjunni í sumar og gríðarlegar hækkanir á bensíni og olíu eftir innrás Rússa í Úkraínu.

Einhvern tímann á árinu 2023

Frakkland: Nú er rétt að drífa í að fá fylli sína af „Brunninum“ eftir Marcel Duchamp og „Bláu mónókrómi“ eftir Yves Klein vegna þess að Pompidou-listamiðstöðinni í París verður lokað árið 2023 vegna viðhalds og ekki opnað á ný fyrr en á fimmtugsafmælinu árið 2027.

Nýja Sjáland: Er hægt að reykja sígarettur og drepa í samtímis? Á Nýja-Sjálandi á að gera tilraun til að gera hvort tveggja með nýstárlegum lögum. Þau kveða á um að þeir sem reyki nú þegar geti haldið því áfram, um leið og komið verði í veg fyrir að ungt fólk ánetjist. Frá og með næsta ári mun lágmarksaldur til að kaupa sígarettur hækka árlega. Ætlunin er sú að þeir sem nú eru 14 ára og yngri muni aldrei á ævinni mega kaupa tóbak.

Wales: Fyrirtækið The Royal Mint, sem sér um myntsláttu á Bretlandi, ætlar í samstarfi við kanadíska sprotafyrirtækið Excir að opna verksmiðju, sem á að endurheimta 99 prósent af gulli í rafkerfum tölva og farsíma, sem hent hefur verið á haugana. Talið er að verðmæti góðmálma í hinum ýmsu rafmagnstækjum um heim allan nemi 57 milljörðum dollara (átta billjónum króna).

Nígería: Þjóðarolíufyrirtæki Nígeríu ætlar að taka af skarið um hvort fjárfest verði í 25 milljarða dollara (3,5 billjóna króna) leiðslu til að flytja gas frá Nígeríu til Marokkó og áfram til Ítalíu og Spánar. Ef það verður samþykkt mun Nígería leggja sitt af mörkum til að draga úr þörf Evrópu fyrir orku frá Rússlandi. Það mun þó ekki gerast í bráð. Leiðslan mun í fyrsta lagi komast í gagnið eftir 25 ár.

Höf.: Masha Goncharova