Hwang Dong-hyuk leikstjóri (fyrir miðju) segir leikaranum Lee Jung-jae (til hægri) til við tökur á fyrstu þáttaröð Smokkfiskaleiksins.
Hwang Dong-hyuk leikstjóri (fyrir miðju) segir leikaranum Lee Jung-jae (til hægri) til við tökur á fyrstu þáttaröð Smokkfiskaleiksins. — Netflix / AFP gegnum Getty Images
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég fann á mér að það voru menningarleg tímamót í farvatninu og fór að láta mig dreyma um mína eigin sjónvarpsstöð. Ég áttaði mig á að það gæti orðið mín leið til að hafa áhrif á byltingu, sem var þegar hafin, að virkja kraft fjölmiðla til að hafa áhrif á hugarfar.

Mo Abudu

er framleiðandi sjónvarpsefnis, kvikmyndagerðarmaður og stofnandi og framkvæmdastjóri EbonyLife Media.

Smekkur áhorfenda er að breytast. Við höfum séð alþjóðleg áhrif þáttanna Smokkfiskaleikurinn frá Suður-Kóreu, þáttanna Lupin og Blóðsystur frá Frakklandi og nígerísku þáttaraðarinnar frá EbonyLife TVAudience, sem komst á topp tíu á alheimslista Netflix fyrstu vikuna á streymisveitunni með 11 milljóna klukkustunda áhorf.

Áhuginn á efni frá Asíu, Afríku og Evrópu er farinn að draga úr yfirburðum Hollywood og jafna tækifærin fyrir sjálfstæða framleiðendur úr öllum áttum. Áskriftir og neysla upplýsinga um allan heim ræður nú lögum og lofum í fjölmiðlaheiminum og það hefur þvingað helstu leikendur á fjölmiðlamarkaðnum til að taka okkur af meiri alvöru.

Ég fæddist í London árið 1964, næstum fjórum árum eftir að Nígería fékk sjálfstæði frá Bretlandi og hófst handa við að hrista af sér menningarleg yfirráð nýlendutímans. Þegar ég kom til Lagos sjö ára gömul til að kynnast fjölskyldu minni þar voru tímar mikillar vonar og bjartsýni í landinu. Því miður urðu breyttar aðstæður í fjölskyldunni til þess að brátt varð ég að hverfa aftur til Bretlands.

Sem ung, svört stúlka í Bretlandi átti ég í erfiðleikum með að finna fyrirmyndir. Ég gat ekki bent á mörg jákvæð dæmi í sjónvarpi, kvikmyndum eða tímaritum. Á sjöunda og áttunda áratugnum fengu flestir svartir leikarar stereótýpísk hlutverk gengjafélaga, eiturlyfjasala og vændiskvenna – eða gamalkunnug aukahlutverk þjónustukvenna, bryta og þræla. Ef sviðið var „einhvers staðar í Afríku“ var svörtum leikurum gert að vera í bakgrunni sem þorpsbúar eða aðrar persónur, sem sjaldnast höfðu rödd. Þegar ég var að vaxa úr grasi var nánast enginn í sjónvarpi sem ég gat samsamað mig við, fyrir utan hina virtu, svörtu fréttamenn Barbara Blake Hannah og Sir Trevor McDonald frá Bretlandi.

Fyrsta sjónvarpsþáttaröðin sem kveikti í mér spennu var Fame, þættir sem um langt skeið áttu góðu gengi að fagna og fjölluðu um stúdenta sem voru að reyna að verða að tónlistarmönnum, leikurum og dönsurum við hinn nafntogaða Menntaskóla í sviðslistum í New York. Leikarahópurinn var ótrúlega fjölbreyttur, þarna voru svartir einstaklingar, gyðingar, einstaklingar af suðuramerískum uppruna og hvítir, sem komu fram og voru metnir fyrir hæfileika sína, ekki uppruna. Það hafði mikil áhrif á mig að horfa á þessa svölu krakka í hverri viku í sjónvarpinu þegar ég var átján ára og það varð til þess að mig langaði að verða dansari – sá metnaður entist þó aðeins þangað til móðir mín, sem leið enga vitleysu, komst að því.

Árið 1994 ákváðum við maðurinn minn að snúa aftur til Nígeríu. Ég var 30 ára gömul. Sjónvarpsefni þar var að mestu leyti innflutt frá Bretlandi og Bandaríkjunum. En það voru breytingar í loftinu. Heimamenn voru byrjaðir að búa til efni sem Nígeríumenn gátu tengt við – efni á tungumálum þeirra sem endurspeglaði þeirra húmor, siði og trú. Nígerískar kvikmyndir fóru ört manna á milli í nánast öllum heimsálfum, fyrst á VHS, síðan DVD. En framfarir í sjónvarpi og kvikmyndageiranum, sem var að slíta barnsskónum, voru hægar. Þegar ég hleypti af stokkunum Moments with Mo var það fyrsti spjallþátturinn sem beint var að allri Afríku og var einn um hituna næsta áratuginn.

Ég fann á mér að það voru menningarleg tímamót í farvatninu og fór að láta mig dreyma um mína eigin sjónvarpsstöð. Ég áttaði mig á að það gæti orðið mín leið til að hafa áhrif á byltingu, sem var þegar hafin, að virkja kraft fjölmiðla til að hafa áhrif á hugarfar. Eftir margra ára basl, erfiðisvinnu og framlag fjölda fólks sem trúði á sýn mína hóf EbonyLife TV að sjónvarpa um alla Afríku 2013. Árið 2015 markaði myndin Fifty upphaf EbonyLife Films og í framhaldinu framleiddum við þrjár af tekjuhæstu myndum allra tíma í nígerískum kvikmyndahúsum.

Fimm árum og sjö kvikmyndasmellum síðar vorum við tilbúin til að venda kvæði okkar í kross. Að þessu sinni vildum við setja afríska frásagnarlist á alheimssvið og ná til alþjóðlegra áhorfenda. Þetta skref varð mögulegt með hröðum vexti streymis og þar við bættist heimsfaraldur, sem varð til þess að milljónir manna uppgötvuðu efni frá ólíkum menningarheimum, sem annars hefðu farið fram hjá þeim. Í þessu nýja menningarlega umhverfi geta áhorfendur horft á heilu þáttaraðirnar á einu helgarfylleríi í staðinn fyrir á 13 vikum í línulegri sjónvarpsdagskrá.

2021 hófum við samstarf við nokkur af helstu kvikmyndaverum heims, þar á meðal Sony Pictures Television, AMS, Lionsgate, BBC Studios, Will Packer Productions og Westbrook Studios, sem eru í eigu Jada Pinkett-Smith og Will Smith. Verkefnin eru allt frá Queen Nzinga, sem gerist á sautjándu öld, til ræningjamyndar sem heitir Reclaim og framtíðartryllisins Nígería 2099 og er umfangið án fordæma hjá sjálfstæðu, afrísku kvikmyndafyrirtæki.

Landslagið hefur breyst. Tökum söguna um stríðsmennina frá Dahomey, flokk kvenna, þúsund alls, sem voru lífverðir konungs í vesturafríska konungdæminu Dahomey á átjándu öld. Ég byrjaði að reyna að koma þessari hugmynd á framfæri 2014 vegna þess að mér fannst að heimurinn þyrfti að sjá hana á hvíta tjaldinu, en enginn beit á agnið. 2018 fór Black Panther eins og stormsveipur um heiminn og kynnti til sögunnar Dora Milaje, óárennilegan kvennaher sem byggður var á hinum raunverulegu valkyrjum frá Dahomey. Í september á þessu ári var önnur hlið á þessari ótrúlegu frásögn úr mannkynssögunni könnuð í myndinni The Woman King með Violu Davis í aðalhlutverki. Og þökk sé Sony Pictures Television í samstarfi við EbonyLife Studios mun sjónvarpsþáttaröðin The Dahomey Warriors um þessar sögufrægu konur brátt verða gædd lífi.

Þessar breytingar eru ekki bundnar við kvikmyndir og sjónvarp. Rétt eins og K-popp fer nígeríski afróslátturinn yfir landamæri. Þökk sé hinum hugrakka, nýja heimi tónlistarstreymis eru nígerískir listamenn á borð við Wizkid, Davido og Burna Boy aðalnúmerið og selja upp helstu tónleikahallir á borð við Madison Square Garden og O2-leikvanginn í London rétt eins og á Landmark-ströndinni í Lagos. Það hafa orðið straumhvörf og héðan í frá verður ekki numið staðar. Það að segja sögur – hvort sem það er í kvikmynd eða söng – hefur breyst til farmbúðar.

En þrátt fyrir allar framfarirnar búum við enn við það að hlutir eru gerðir til málamynda. Sum kvikmyndaver vilja bara geta merkt við í fjölmenningarreitinn til að sýna að þeir séu að reyna að hleypa öllum að. Sem betur fer gera aðrir sér grein fyrir hvað það er mikilvægt að uppfylla vaxandi áhuga um allan heim á sögum, sem enn hafa ekki verið sagðar, um fólk sem á skilið að sjást, með möguleikann á að splundra hinu viðtekna með sama hætti og Svarti pardusinn.

Þegar ég hugsa í dag um litlar svartar stúlkur sem alast upp langt að heiman í ógnandi umhverfi sem gæti kæft sjálfsvirðingu þeirra vona ég að þessi bylgja breytinga næri anda þeirra og veiti þeim eldsneyti til að láta sig dreyma um hluti sem ég þorði aldrei að vonast eftir. Ég vil að þessar stúlkur sjái sjálfar sig í sögunum sem við segjum – þar sem er um marga kosti að velja, slagir til að taka og að lokum draumar til að láta rætast. Ég ætla að halda áfram að berja að dyrum og brjóta niður þröskulda þar til við sköpum hinn nýja veruleika. Það er það minnsta sem hver einasta unga stúlka á skilið.

© 2022 The New York Times Company og Mo Abudu

Höf.: Mo Abudu er framleiðandi sjónvarpsefnis, kvikmyndagerðarmaður og stofnandi og framkvæmdastjóri EbonyLife Media.