Leikkona Ana de Armas.
Leikkona Ana de Armas. — AFP/Tommaso Boddi
Stiklur kvikmynda eiga að endurspegla innihaldið og því er kvikmyndaaðdáendum heimilt að fara í mál við kvikmyndaframleiðendur ef leikari í stiklu er á endanum klipptur út úr myndinni. Þetta er niðurstaða Stephens Wilson, dómara í Bandaríkjunum, sem …

Stiklur kvikmynda eiga að endurspegla innihaldið og því er kvikmyndaaðdáendum heimilt að fara í mál við kvikmyndaframleiðendur ef leikari í stiklu er á endanum klipptur út úr myndinni. Þetta er niðurstaða Stephens Wilson, dómara í Bandaríkjunum, sem nýverið úrskurðaði að málshöfðun tveggja kvikmyndaaðdáenda gegn Universal Pictures skyldi dómtekin, en kvikmyndaframleiðandinn hafði farið fram á að málinu yrði vísað frá.

Forsaga málsins er sú að Peter Michael Rosza og Conor Woulfe leigðu sér myndina Yesterday á Amazon Prime árið 2019 fyrir 3,99 dali eða ríflega 572 íslenskar krónur. Þegar þeir fóru að horfa komust þeir að því að leikkonan Ana de Armas, sem þekktust er fyrir leik sinn í No Time to Die og Knives Out, hefði verið klippt út úr myndinni þrátt fyrir að hafa verið í stiklu myndarinnar.

Framleiðslufyrirtækið hélt því fram að tjáningarfrelsið sem kveðið er á um fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar næði yfir stikluna, en því hafnaði dómarinn með úrskurði sínum. „Stiklur eru ígildi auglýsinga sem hafa það að markmiði að selja kvikmyndina með því að veita neytendum forsmekk að því sem koma skal,“ skrifaði dómarinn í úrskurði sínum og áréttaði þar með að löggjöf sem tryggja á heiðarleika í auglýsingum ætti við um stikluna. Næsti fundur málsins í dómsal verður 3. apríl. Farið hefur verið fram á a.m.k. fimm milljón dala bætur fyrir hönd vonsvikinna aðdáenda Armas.