Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Vöxtur nú í ánni er. Árafjölda vitni ber. Slark á vegi hermi hér. Hefur dauða í för með sér. Guðrún B. á þessa lausn: Hlaup var í ánni yfir sanda og ársvexti horns við sauðfjáreyra

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Vöxtur nú í ánni er.

Árafjölda vitni ber.

Slark á vegi hermi hér.

Hefur dauða í för með sér.

Guðrún B. á þessa lausn:

Hlaup var í ánni yfir sanda

og ársvexti horns við sauðfjáreyra.

Hlaupið í stýri veldur vanda,

en voði úr byssuhlaupi meira.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Hlaup í ánni hafið er.

Á hornum aldri vitni ber.

Slark á vegi hlaup er hér.

Í hlaupi dauði falinn er.

Þá er limra:

Geiri er frár eins og gaupa

og gjarn fram úr hófi að raupa

af sjálfum sér

og sífellt er

sá hlaupari á sig að hlaupa.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Snjóað hefur næsta nóg,

nú sést hvergi á auða tó,

þreyttur gróf ég göng í snjó,

gátuna ég samdi þó:

Hér er fat með föngum á.

Finnst á hverjum sláttuljá.

Býsna frægur bærinn sá.

Berst um loftið til og frá.

Úr „Nýárshringingu 1909“ eftir Matthías Jochumsson:

Hringið út lygar hrekk og prett –

heimskunnar forna syndagjald;

hringið inn fagurt, frjálst og rétt:

fari svo árið Guði á vald.

Guðmundur Arnfinnsson segir „Bless“ á Boðnarmiði:

Á hjarta kalinn kuldablár

kveð ég þig án eftirsjár,

lengst í burt með frost og fár

farðu í rassgat gamla ár.

Þegar síra Guðjón Hálfdánarson fékk Saurbæ í Eyjafirði kom hann sunnan af landi og hafði þjónað Krossþingum. Var hann þá við aldur. Þá kvað Jónas Jónsson, er bjó í Villingadal og Hólsgerði:

Loks þegar snjóinn leysti í ár

lands um flóann kunnan

kom með lóum grettinn, grár

grallaraspói að sunnan.

Ólafur Stefánsson yrkir:

Króna beygð en kalinn haddur

kuldagjóstur vefst um ból.

Þannig fer ef gufa og gaddur

ganga í leik í skemmstri sól.

Lilja Gottskálksdóttir kvað:
Færðin bjó mér þunga þraut,
þrótt úr dró til muna.
Hreppti ég snjó í hverri laut
hreint í ónefnuna.