Grindavík vann nauman 95:93-sigur á Þór frá Þorlákshöfn þegar liðin áttust við í hörkuleik í 11. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildarinnar, í Grindavík í gærkvöldi.
Grindavík náði nokkrum sinnum drjúgri forystu í leiknum en Þór gafst ekki upp og náði að minnka muninn í aðeins eitt stig, 91:90 og 94:93, undir blálokin en komst ekki nær.
Damier Pitts var stigahæstur í liði Grindavíkur með 26 stig og átta fráköst. Skammt undan var Ólafur Ólafsson með 24 stig og níu fráköst. Hjá Þór var Vinnie Shahid stigahæstur með 36 stig og sjö stoðsendingar. Styrmir Snær Þrastarson bætti við 19 stigum auk þess sem hann tók 12 fráköst og gaf átta stoðsendingar.
Með sigrinum fór Grindavík upp í 7. sæti deildarinnar á ný þar sem liðið er með 12 stig, en átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn.
Þór heldur hins vegar kyrru fyrir í 11. sæti, fallsæti, þar sem liðið er með einungis 4 stig.