Frakkland
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Lukkan hefur ekki verið með Darra Aronssyni, atvinnumanni hjá franska 1. deildar liðinu Ivry í handknattleik karla, í liði frá því að hann gekk í raðir félagsins frá uppeldisfélagi sínu Haukum í sumar. Vegna ristarbrots hefur hann ekki náð að spila neitt fyrir Ivry á tímabilinu.
„Þetta er náttúrlega algjört ólán. Ég ristarbrotnaði á álagsbroti svona korteri í flug þannig séð, þetta gerðist tveimur dögum áður en ég flaug til Ivry. Svo brotnaði ég aftur í október þegar ég var að byrja að æfa handbolta aftur. Á fyrstu æfingunni til baka brotnaði ég aftur.
Þá var þetta ekki nógu vel gróið þannig að ég var settur of snemma af stað. Eftir seinna brotið var ég settur í aðgerð núna í nóvember og verð vonandi tilbúinn aftur um miðjan febrúar. Vonandi ekki seinna, þetta er búið að vera ótrúlegt með þessi bakslög. Vonandi mun lánið leika aðeins betur við mig árið 2023,“ sagði Darri í samtali við Morgunblaðið.
Þrátt fyrir bakslög sagði hann bataferlið og endurhæfinguna ganga afar vel um þessar mundir. „Já, ég er meira að segja tveimur vikum á undan áætlun eins og staðan er núna, allavega að mati skurðlæknisins. Þetta er allt að ganga vel núna.“
Darri vonast því til þess að missa ekki af meira en einum til tveimur leikjum á seinni hluta tímabilsins.
Algjört klúður
Blaðamanni lék forvitni á að vita af hverju Darri hefði ekki verið sendur í skurðaðgerð strax eftir að hann ristarbrotnaði í fyrra skiptið.
„Það var ákveðið af liðslækninum. Liðslæknirinn ákvað það þrátt fyrir að Brynjólfur Jónsson, bæklunarskurðlæknir í Orkuhúsinu, vildi meina að ég þyrfti að láta skrúfa þetta strax vegna þess að hann hefur oft séð svona brot.
Hann vildi meina að það þyrfti að gera það til þess að ég myndi jafna mig sem best en liðslæknarnir vildu meina að það þyrfti ekki vegna þess að þetta var ótrúlega fíngert brot. Þeir vildu meina að það væri óþarfi. Það var auðvitað algjört klúður að ég væri ekki bara settur strax í aðgerð,“ sagði Darri.
Hann vildi þó ekki dvelja við þetta klúður enda ekki til neins. „Það er svekkjandi að maður brotnar á þennan hátt en það þarf ekki að kenna neinum um og nú er það bara áfram veginn. Það þýðir ekkert að hugsa um þetta.“
Búið að vera ótrúlega erfitt
Ivry hefur átt erfitt uppdráttar í afar sterkri franskri deild þar sem liðið er með 8 stig eftir 15 leiki, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Darra hefur þótt það leitt að hafa ekki getað hjálpað Ivry neitt á tímabilinu en telur liðið þó eiga mikið inni.
„Þetta er bara búið að vera ótrúlega erfitt, sérstaklega hvað við höfum þurft að glíma við gífurlega mikið af meiðslum. Við misstum einn af línumönnunum frá okkur í byrjun tímabils og svo hafa hinir tveir línumennirnir verið frá til skiptis, þannig að okkur hefur mjög mikið vantað „þrista“ í vörninni. Þá höfum við stundum þurft að fara í 5-1 vörn í staðinn.
Við höfum verið gífurlega óheppnir, tapað mörgum leikjum með einu til þremur mörkum, til dæmis með tveimur á móti sterkum liðum á við [topplið] Montpellier. Ég myndi segja að staðan í deildinni endurspegli ekki frammistöðuna á vellinum því við höfum verið ótrúlega sterkir en óheppnir með meiðsli og annað.“
Hann sagði stutt í endurkomu annarra leikmanna sem eru meiddir um þessar mundir.
„Þeir eru víst allir að verða heilir aftur núna í janúar. Vonandi komum við tvíefldir til leiks á seinni hluta tímabilsins þegar önnur umferð deildarinnar byrjar í febrúar.“
Vill endurgjalda traustið
Darri, sem var kallaður inn í A-landsliðshópinn á EM 2022 í upphafi ársins vegna fjölda kórónuveirusmita hjá leikmönnum, sagðist ekkert hafa leitt hugann að landsliðinu, sem tekur senn þátt á HM í Svíþjóð og Póllandi, undanfarið enda í forgangi að jafna sig á meiðslunum til þess að geta hjálpað félagsliði sínu sem fyrst.
„Eins og staðan er núna þarf ég bara að einbeita mér að mínum hlutum og koma mér aftur inn á völlinn. Ég held að allir íslenskir handboltamenn vilji vera landsliðsmenn og ég mun auðvitað leggja hart að mér til að vinna fyrir því, að sýna að ég geti verið það í framtíðinni.
En ég hef ekkert verið með HM í huga núna, ég er auðvitað að koma úr mjög erfiðum og langvinnum meiðslum, þetta eru um sex mánuðir. Eins og staðan er núna ætla ég að endurgjalda mínum mönnum í Ivry þeirra traust og trú í minn garð, sem ég er ótrúlega heppinn með og þakklátur fyrir,“ sagði hann.
„Þrátt fyrir öll þessi meiðsli hafa þeir staðið gífurlega þétt við bakið á mér og verið ótrúlega hjálplegir og þolinmóðir. Ég vil endurgjalda það traust með því að koma tvíefldur til baka,“ sagði Darri að lokum í samtali við Morgunblaðið.