„Maður getur ekki horfið burt á sama hátt og maður kom,“ segir persónan Willy Loman í leikriti Arthurs Millers, „Sölumaður deyr“. „Það gengur ekki, maður verður að skilja eitthvað eftir sig.“ Í hvert skipti sem ég …

„Maður getur ekki horfið burt á sama hátt og maður kom,“ segir persónan Willy Loman í leikriti Arthurs Millers, „Sölumaður deyr“. „Það gengur ekki, maður verður að skilja eitthvað eftir sig.“

Í hvert skipti sem ég kem fram í þessu hlutverki í uppfærslunni, sem nú er sýnd á Broadway, minnir það mig á hina meðfæddu löngun mannsins til að hafa varanleg áhrif á heiminn áður en við kveðjum hann. Sem listamaður hefur mér alltaf fundist það forréttindi að segja sögur, hvort sem það hefur verið með því að taka upp tónlist, vera þulur í heimildarmynd eða fara í hlutverk persónu á skjánum. Að segja söguna af ferðum okkar gefur lífi okkar tilgang, merkingu og endingu, veitir innsýn í hlutskipti mannsins, sem hægt er að deila með komandi kynslóðum og felur í sér máttinn til að breyta sjónarhorni fólks.

Að segja sögur er einnig gáttin að því að segja sannleikann, sem hjálpar okkur að móta skoðanir okkar með upplýstum hætti, taka ákvarðanir og sjá okkur sjálf. Með því að segja sögur getum við náð saman, sagt hver okkar gildi eru og breytt í samræmi við þau. Án þess að segja sögur hefðum við ekki öll þau lög sögunnar, sem setja mark sitt á samtímann og hafa áhrif á framtíðina. Það er ógerningur að ímynda sér heim þar sem forfeður okkar deildu ekki reynslu sinni af þrældómi, ofsóknum, hryllingi, heiðri, von og sigrum.

Hugsið um hvert landslag frásagnarinnar í djassi – hugmyndin um frelsi og form fær tilveru hlið við hlið í listinni – væri án listamanna á borð við Miles Davis, Ellu Fitzgerald og Louis Armstrong. Án þeirra væri enginn Terence Blanchard, Cécile McLorin Salvant, Wynton Marsalis eða allir þeir tónlistarmenn, sem haldið hafa djassinum á lofti fram á þennan dag. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á varð það að segja sögur tignaður vettvangur huggunar og sköpunar. Við uppgötvuðum nýja höfunda og kvikmyndagerðarmenn, enduruppgötvuðum bíómyndir og uppáhaldssjónvarpsefni og fórum á sýningar leikhúsa um allan heim á netinu.

Ég fann mína gátt að því að segja sögur þegar ég var að vaxa úr grasi sem drengur í New Orleans með innblæstri frá hinu sögulega Free Southern Theater og á 40 ára ferli mínum hef ég lært að meta kraft þess til fullnustu. Í hvert einasta skipti, sem ég stíg á svið fyrir framan myndavél, er ég að búa til samband við áhorfendur í þeirri von að þegar við skiljum og sýningunni er lokið hafi þeir sína eigin sögu að segja.

Að standa daglega á sviði í Sölumaður deyr, í klassísku hlutverki Willys Lomans, eru ekki aðeins tímamót í mínu lífi og ferli, heldur bætir einnig við sögulegum kafla og opnar dyr fyrir fjölda ólíkra radda og listamanna til að segja þessa sögu. Ég vona að með hverri sýningu brennum við til grunna hús, sem hefur verið eins og spennitreyja, og reisum stærra heimili þar sem fleiri eiga athvarf – þar sem er að finna nærandi umhverfi til að fagna allri þeirri sagnaauðgi sem við búum yfir.

Wendell Pierce er leikari og tónlistarmaður. Hann leikur um þessar mundir í nýrri uppfærslu af Sölumaður deyr á Broadway.