— Evelyn Hockstein/Reuters
Ágúst Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti 1. ágúst að Bandaríkjamenn hefðu ráðið Egyptann Ayman al-Zawahiri, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, af dögum í drónaárás. Hryðjuverkamaðurinn varð foringi al-Qaeda eftir að Osama bin Laden dó 2011

Ágúst Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti 1. ágúst að Bandaríkjamenn hefðu ráðið Egyptann Ayman al-Zawahiri, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, af dögum í drónaárás. Hryðjuverkamaðurinn varð foringi al-Qaeda eftir að Osama bin Laden dó 2011. Hann var 71 árs og var veginn á heimili sínu í Kabúl í Afganistan. Biden sagði í ræðu að hann hefði leyft banatilræðið og með því hefði „réttlætinu verið fullnægt“. Al-Zawahiri var náinn samstarfsmaður og einnig læknir bin Ladens og hafði mikið að segja um aðgerðir al-Qaeda. Hann stofnaði hryðjuverkasamtök í Egyptalandi, sem runnu saman við al-Qaeda á tíunda áratug 20. aldar. Hann var þá eftirlýstur af Sameinuðu þjóðunum og Bandaríkjunum fyrir þátt sinn í sprengjutilræðunum við sendiráð Bandaríkjanna í Keníu og Tansaníu 1988 og síðar sprengjutilræðum á Balí 2002. Á myndinni sést líkan af bækistöðvum al-Zawahiri, sem var notað þegar aðgerðin til að vega hryðjuverkaleiðtogann var kynnt Biden forseta. Það er nú á safni bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, í Virginíu.