Ásdís Ásgeirsdóttir
Kvikmyndina Glass Onion, með titli sem vísar í gamalt Bítlalag, má nú finna á Netflix og er framhald af Knives Out. Í Glass Onion erum við stödd á lítilli grískri einkaeyju í eigu billjónamæringsins Miles Brons, leikinn af Edward Norton. Hann býður litríkum vinum sínum til sín í helgarferð til að fara í morðleik. Bron þessi býr í afar ríkmannlegu „húsi“ þar sem hvelfing trónir yfir híbýlum, sportbíll er til sýnis á þakinu, því engir eru vegirnir á eyjunni, og í stofunni hangir Mona Lisa, sem hann leigði af Louvre-safninu.
Þegar raunverulegt morð er framið fer að kárna gamanið og hefst nú leit að alvörumorðingja og líkt og í góðri Agöthu Christie-sögu liggja allir undir grun. Nema þá helst suðurríkjaspæjarinn Benoit Blanc, leikinn af Bond-hjartaknúsaranum Daniel Craig, sem leysir að sjálfsögðu gátuna.
Kvikmyndin er fínasta skemmtun, mikið fyrir augað og það er „tvist“ í sögunni. Undir niðri er hún einnig ádeila á líf hinna ofurríku sem hika ekki við að eyða morð fjár í óþarfa sýndarmennsku. Án þess að segja of mikið þá er endirinn stórfínn og skilur áhorfandann eftir ánægðan enda hlakkar kannski í manni þegar billjónamæringar fá ekki allt sem þeir vilja.