September Elísabet II. Bretadrottning lést 8. september 96 ára að aldri. Þar með lauk 70 ára valdatíð sem hófst á einni öld og lauk á annarri. Viðamikil útför fór fram 19. september eftir 10 daga sorgartímabil. Talið er að 250 þúsund manns hafi stillt sér upp til að votta hinni elskuðu og dáðu drottningu hinstu virðingu. Almenningur gat kvatt drottninguna í Westminster Abbey þar sem hún lá fyrir útförina. Þar gifti hún sig árið 1947 og var krýnd árið 1953. Drottningin var jarðsett í kapellu heilags Georgs í Windsor-kastala við hlið manns síns, hertogans af Edinborg, föður síns, Georgs VI., móður sinnar, Elísabetar, og systur, Margrétar prinsessu. Í huga margra, sem þekktu ekki annað en að Elísabet gegndi keik embætti drottningar, markar fráfall hennar tíma óvissu, ekki síst vegna pólitísks usla í Íhaldsflokknum, sem skipti tvisvar um forsætisráðherra á nokkrum vikum, og yfirvofandi efnahagskreppu. Myndin sýnir mannþröngina á götum Lundúna þegar fólk stillti sér upp til að fylgjast með líkfylgd Elísabetar frá Westminster Abbey til hinstu hvílu í Windsor-kastala.