Óeirðir Lögreglumaður var dreginn niður af hesti sínum af stuðningsmönnum Bolsonaros í óeirðunum í gær.
Óeirðir Lögreglumaður var dreginn niður af hesti sínum af stuðningsmönnum Bolsonaros í óeirðunum í gær. — AFP/Sergio Lima
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tómas Arnar Þorláksson tomasarnar@mbl.is Stuðningsmenn Jair Bolsonaros, fyrrverandi forseta Brasilíu, ruddu sér leið inn í þinghús Brasilíu, hæstarétt landsins og í forsetahöllina í Brasilíuborg í gær til að mótmæla embættistöku Luiz Inacio Lula da Silva, forseta landsins.

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is

Stuðningsmenn Jair Bolsonaros, fyrrverandi forseta Brasilíu, ruddu sér leið inn í þinghús Brasilíu, hæstarétt landsins og í forsetahöllina í Brasilíuborg í gær til að mótmæla embættistöku Luiz Inacio Lula da Silva, forseta landsins.

Lula, eins og hann er kallaður, bar sigur úr býtum gegn Bolsonaro í forsetakosningum í október eftir harðvítuga kosningabaráttu, en Bolsonaro hefur enn ekki viðurkennt sigur Lula. Þá afsalaði hann ekki formlega völdum sínum til Lula við innsetningarathöfn sem fór fram á nýársdag. Ákvað Bolsonaro að yfirgefa landið áður en Lula tók við embættinu og hefur hann dvalist í Flórída síðan þá.

Táragas dugði ekki til

Stuðningsmenn Bolsonaros hafa mótmælt mjög ósigri hans allt frá því að niðurstöður forsetakosninganna lágu fyrir í lok október. Mótmæltu þeir m.a. fyrr í vetur við höfuðstöðvar brasilíska hersins og kröfðust þess að herinn gripi í taumana til að koma í veg fyrir að Lula tæki við forsetaembættinu.

Óeirðalögregla reyndi að dreifa mannfjöldanum í gær með táragasi en án árangurs. Ruddust þúsundir manna í gegnum lokanir lögreglu og inn í þinghúsið og var talið í gær að tjón inni í byggingunni væri umtalsvert.

Myndskeið, sem birt voru á samfélagsmiðlum í gærkvöldi, sýndu æstan múg ryðja sér leið inn í þinghúsið, þar sem hann braut og bramlaði húsgögn og annað sem hönd festi á. Þá safnaðist mikill fjöldi saman á þaki þinghússins til að sýna að hann myndi ekki samþykkja valdatíð Lula. Að lokum náði brasilíska óeirðalögreglan fullri stjórn á byggingunum af mótmælendum. Allt tiltækt lögreglulið í höfuðborginni var kallað út til að vinna bug á óeirðunum.

Fordæma verk mótmælenda

Lula fordæmdi innrás stuðningsmanna Bolsonaros í gærkvöldi á Twitter og kallaði mótmælendur fasista og ofstækismenn. „Við munum komast að því hverjir þessir skemmdarvargar eru,“ sagði hann og hét því að árásarmennirnir yrðu dregnir til ábyrgðar fyrir gjörðir sínar. Forsetinn var staddur í Araraquara í suðausturhluta Brasilíu þegar árásin átti sér stað en borgin hafði orðið illa úti í flóðum.

Helstu þjóðarleiðtogar Vesturlanda lýstu yfir stuðningi sínum við Lula í gærkvöldi og fordæmdu um leið innrásina. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði til dæmis að það yrði að virða lýðræðið og stofnanir Brasilíu og lýsti yfir stuðningi Frakklands við Lula. Hvíta húsið sendi einnig frá sér yfirlýsingu þar sem var lýst yfir stuðningi við réttkjörinn forseta.

Höf.: Tómas Arnar Þorláksson