Jannis Noya Makrigiannis
Jannis Noya Makrigiannis
Danski söngvarinn og lagasmiðurinn Jannis Noya Makrigiannis er dáinn, 39 ára að aldri. Makrigiannis leiddi eina vinsælustu hljómsveit Danmerkur hin síðari ár, Choir of Young Believers, sem var breytileg að stærð eftir tilefnum og hlaut hin ýmsu verðlaun

Danski söngvarinn og lagasmiðurinn Jannis Noya Makrigiannis er dáinn, 39 ára að aldri. Makrigiannis leiddi eina vinsælustu hljómsveit Danmerkur hin síðari ár, Choir of Young Believers, sem var breytileg að stærð eftir tilefnum og hlaut hin ýmsu verðlaun. Þótti Makrigiannis hafa einstaka og fagra söngrödd og kannast eflaust margir við eitt hans þekktasta lag, „Hollow Talk“, sem var upphafslag dansk-sænsku þáttaraðanna Brúin.

Makrigiannis glímdi við veikindi áður en hann dó en ekki kemur fram í fréttum hvers konar veikindi. Hljómsveit hans fyrrnefnd kom til Íslands árið 2010, lék á Iceland Airwaves og tók Morgunblaðið hann þá tali og einnig í Árósum fjórum árum síðar þar sem hljómsveitin lék á Spot-tónlistarhátíðinni. Í fyrra viðtalinu sagði hann m.a. að það að hlusta á tónlist væri mjög heilagur hlutur í hans huga þar sem það væri svo margt í henni sem væri hluti af hans lífi og þá einkum tilfinningalífi. „Ég fæ kraft úr henni og hún gefur mér alveg afskaplega mikið,“ sagði Makrigiannis.