Vatnstjón Útköllum vegna vatnstjóns fjölgaði mjög á síðasta ári.
Vatnstjón Útköllum vegna vatnstjóns fjölgaði mjög á síðasta ári. — Morgunblaðið/Eggert
Árið 2022 þótti annasamt hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og fjölgaði útköllum dælubíla um 15,86% á milli ára. Voru útköllin samtals 1.534 á árinu 2022, miðað við 1.324 á árinu 2021. Þá fjölgaði forgangsútköllum úr 757 árið 2021 upp í 824 árið 2022

Árið 2022 þótti annasamt hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og fjölgaði útköllum dælubíla um 15,86% á milli ára. Voru útköllin samtals 1.534 á árinu 2022, miðað við 1.324 á árinu 2021. Þá fjölgaði forgangsútköllum úr 757 árið 2021 upp í 824 árið 2022.

Í fréttatilkynningu frá slökkviliðinu kemur fram að þetta sé mesta fjölgun útkalla dælubíla milli ára og megi rekja hana að stærstum hluta til óveðurs og vatnstjóna. Þannig hafi útköllum vegna óveðurs fjölgað um 182% milli ára og útköllum vegna vatnstjóna um 53%.

Færri sjúkraflutningar

Nokkuð dró úr sjúkraflutningum á síðasta ári. Heildarboðanir á sjúkrabíla voru 40.564 á árinu 2022, miðað við 42.154 árið 2021. Er það breyting upp á -3,77%. Þá voru 32.570 sjúkraflutningar á síðasta ári miðað við 35.131 árið 2021 og er munurinn þar um -7,29% á milli ára.

Í tilkynningu slökkviliðsins kemur fram að munurinn á milli boðana sjúkrabíls og flutnings á sjúkrahús hafi aukist á milli ára, þar sem þeim boðunum sem afgreiddar séu á staðnum hafi fjölgað í 11% 2022 úr 6% árið 2021. Af boðunum voru 10.184 forgangsboðanir árið 2022, og lauk 5.763 þeirra með flutningi á sjúkrahús. Er það aukning frá árinu 2021, en þá voru 9.848 forgangsboðanir og 5.721 þeirra endaði með flutningi á sjúkrahús.