Sigurður Már Jónsson blaðamaður fjallar um það í pistli á mbl.is hvernig FBI ritstýrði Twitter. Fram eru að koma athyglisverðar upplýsingar um afskipti opinberra aðila í Bandaríkjunum af skrifum á samfélagsmiðla eftir að Elon Musk keypti Twitter

Sigurður Már Jónsson blaðamaður fjallar um það í pistli á mbl.is hvernig FBI ritstýrði Twitter. Fram eru að koma athyglisverðar upplýsingar um afskipti opinberra aðila í Bandaríkjunum af skrifum á samfélagsmiðla eftir að Elon Musk keypti Twitter.

Sigurður Már segir að í ljós hafi komið að „furðu hátt hlutfall beiðna frá FBI er um að Twitter gripi til aðgerða vegna rangra upplýsinga um kosningar, jafnvel að taka á bröndurum frá reikningum sem fengu til þess að gera litla athygli“. Þá segir hann að það sé „kunn kenning innan fjölmiðlafræða að blaðamenn séu í hliðvarðahlutverki, ákveði hvaða upplýsingar og efni fari til almennings. Samfélagsmiðlar hafa ruglað þessari mynd og ef fyrirbæri eins og FBI og CIA hafa stigið inn í hlutverkið verða það að teljast nokkur tíðindi.“

En það er ekki aðeins að afskipti hafi verið höfð af skrifum á Twitter. Fram hefur komið að hið sama hafi átt við um fjölda annarra, svo sem Facebook, Microsoft, Verizon, Reddit og Pinterest.

Þá segir Sigurður Már að gögnin frá Twitter sýni einnig „hvernig beiðnir um „endurskoðun“ (lesið ritskoðun) á tístum héldu áfram að hrannast upp þegar forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 2020 nálguðust“.

Fjölmiðlar og almenningur verða að vera vel vakandi gagnvart slíkum inngripum hins opinbera.