Bjarnheiður Hallsdóttir
Bjarnheiður Hallsdóttir
Tómas Arnar Þorláksson tomasarnar@mbl.is „Það er mikil bjartsýni fyrir árinu og við getum sagt að það megi alveg reikna með metári ef allt fer eins og það á að fara,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, spurð hvernig árið 2023 líti út í ferðamannageiranum.

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is

„Það er mikil bjartsýni fyrir árinu og við getum sagt að það megi alveg reikna með metári ef allt fer eins og það á að fara,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, spurð hvernig árið 2023 líti út í ferðamannageiranum.

Hún bendir þó á að það sé ýmislegt sem geti haft áhrif á komu ferðamanna til landsins á árinu. Hún nefnir í því samhengi stríðið í Úkraínu, verðbólgu á markaðssvæðunum og hugsanlega endurkomu kórónuveirufaraldursins. Hún segir að í raun geti fátt komið í veg fyrir metár fyrir ferðaþjónustuna nema nýr heimsfaraldur geri vart við sig eða frekari stríðsátök brjótist út í Evrópu.

Spurð hvað leiki stærsta hlutverkið í að met í ferðamannafjölda til landsins verði slegið á árinu segir Bjarnheiður að auknar samgöngur til landsins og sívaxandi áhugi á Íslandi gegni þar stóru hlutverki. Hún bendir á að beint flug sé hafið til Egilsstaða og Akureyrar sem muni koma til með að hafa einhver áhrif. Hún nefnir einnig síaukinn áhuga í Bandaríkjunum sem hefur komið henni á óvart. „Við erum mjög ofarlega á golulistum Bandaríkjamanna og bandaríkjadalurinn er sterkur, sem gerir það hagkvæmt fyrir þá að koma. Tekjur af hverju ferðamanni hafa verið að aukast og við vonumst til að það haldi áfram.“

Hún segir að helsta áskorunin á árinu muni vera að manna störf í ferðamannaþjónustunni. „Ég myndi ekki segja að þjónustan sé að springa en það verður uppselt hérna í margar vikur eða mánuði í sumar og er orðið það nú þegar á ákveðnum svæðum. Þar er ekki hægt að fá gistingu eða nokkurn skapaðan hlut.“ Hún segir að eftirspurn hafi verið komin umfram framboð á sumum stöðum í nóvember í fyrra. Að hennar sögn hefur það aldrei gerst áður svo snemma.

Kínverjar snúa aftur

„Kína er að opnast aftur þó að það sé í skugga kórónuveirunnar að einhverju leyti en það er mikilvægur markaður og sérstaklega yfir vetrartímann. Það mun hafa mikil áhrif þegar sá markaður kemur aftur inn,“ segir Bjarnheiður sem reiknar með svipuðum fjölda kínverskra ferðamanna og fyrir faraldurinn. Hún segir mikilvægi kínverska markaðarins felast í því að hann komi utan háannatíma og dreifi þannig álaginu yfir allt árið.

Að mati Bjarnheiðar er kórónuveiran það eina sem gæti takmarkað ferðir Kínverja til Íslands. „Nú eru einhver lönd farin að skima alla Kínverja sem koma. Það koma engir Kínverjar hingað í beinu flugi og við getum ekki farið að tala fyrir skimunum hérna aftur, ég held að það sé alveg ómögulegt.“

Hún bætir þó við að álit hennar á skimun á landamærunum gæti breyst ef ný afbrigði fara að skjóta upp kollinum. Spurð hvort skimun myndi hafa áhrif á komu Kínverja hingað til lands bendir Bjarnheiður á að þeir séu vanir mjög hörðum takmörkunum heima fyrir og því ekkert augljóst að skimun myndi endilega hafa áhrif.

Höf.: Tómas Arnar Þorláksson