Vígalegir Hljómsveitina The Brian Jonestown Massacre skipa, frá vinstri, þeir Collin Hegna, Ryan Van Kriedt, hinn íslenski Hákon Aðalsteinsson, Anton Newcombe, Uri Rennert, Joel Gion og Ricky Maymi.
Vígalegir Hljómsveitina The Brian Jonestown Massacre skipa, frá vinstri, þeir Collin Hegna, Ryan Van Kriedt, hinn íslenski Hákon Aðalsteinsson, Anton Newcombe, Uri Rennert, Joel Gion og Ricky Maymi.
Hin góðkunna bandaríska rokkhljómsveit The Brian Jonestown Massacre lýkur Evróputónleikaferð sinni með tónleikum í Gamla bíói föstudaginn 3. mars. Í tilkynningu segir að hljómsveitin eigi sér mikinn og dyggan hóp aðdáenda um heim allan og hafi gefið út tuttugu plötur

Hin góðkunna bandaríska rokkhljómsveit The Brian Jonestown Massacre lýkur Evróputónleikaferð sinni með tónleikum í Gamla bíói föstudaginn 3. mars. Í tilkynningu segir að hljómsveitin eigi sér mikinn og dyggan hóp aðdáenda um heim allan og hafi gefið út tuttugu plötur. Sú nýjasta er væntanleg í febrúar.

The Brian Jonestown Massacre var stofnuð árið 1990 í bandarísku borginni San Fransisco af söngvaranum, tónlistarmanninum og lagasmiðnum Anton Newcombe en nafn sveitarinnar er lofgjörð til Brians Jones, gítarleikara Rolling Stones, og áhrifa hans sem færðu austurlenska speki inn í vestrænt rokk og ról á sjöunda áratugnum, að því er fram kemur í fyrrnefndri tilkynningu. Segir þar einnig að Newcombe hafi orðið goðsagnakenndur persónuleiki eftir að verðlaunaheimildarmyndin Dig! kom út árið 2004 en hún fjallaði um vináttu og síðar óvinskap hljómsveitanna The Brian Jonestown Massacre og The Dandy Warhols.

The Brian Jonestown Massacre lék síðast í Reykjavík árið 2006 á tónleikastaðnum Nasa og tók Newcombe þá ástfóstri við Ísland og hefur sótt landið heim reglulega upp frá því. Íslendingur er meðal liðsmanna í sveitinni, Hákon Aðalsteinsson heitir hann og er sagður hafa getið sér góðan orðstír með hljómsveitinni Gunman and the Holy Ghost.

Tónleikarnir í Gamla bíó eru skipulagðir af plötuversluninni 12 tónum og eru liður í 25 ára afmælishátíðarhöldum hennar.

Miðasala á tónleikana fer fram á Tix.is og er sérstök athygli vakin á því að The Brian Jonestown Massacre muni aðeins halda þessa einu tónleika hér á landi.