Vegalokanir Flateyrarvegi í Önundarfirði var lokað.
Vegalokanir Flateyrarvegi í Önundarfirði var lokað. — Morgunblaðið/RAX
Veginum á milli Súðavíkur og Ísafjarðar, sem og Flateyrarvegi í Önundarfirði, var lokað klukkan 20 í gærkvöldi. Var það gert af öryggisástæðum vegna snjóflóðahættu fyrir ofan vegina. Í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum kom fram að athugað yrði…

Veginum á milli Súðavíkur og Ísafjarðar, sem og Flateyrarvegi í Önundarfirði, var lokað klukkan 20 í gærkvöldi. Var það gert af öryggisástæðum vegna snjóflóðahættu fyrir ofan vegina.

Í tilkynningu lögreglunnar á Vestfjörðum kom fram að athugað yrði klukkan 7 nú í morgun hvort óhætt væri að opna vegina á ný.

„Flestir fjallvegir á Vestfjörðum eru lokaðir vegna hvassviðris og ofankomu. Vegfarendur eru hvattir, sem fyrr, til að athuga með veður og færð áður en lagt er af stað milli byggðakjarna. Varðskipið Þór verður viðbragðsaðilum til halds og trausts á Dýrafirði meðan þetta gengur yfir,“ sagði í fyrri tilkynningu lögreglunnar, þar sem tilkynnt var um lokunina á milli Ísafjarðar og Súðavíkur.

Tvær leiðir eru til að komast landleiðina til Ísafjarðar eða Bolungarvíkur. Önnur þeirra er í gegnum Súðavíkurhlíðina og sú hefur verið algengari heilsársleið. Þegar vegurinn er lokaður hefur það því töluverð áhrif á svæðinu til dæmis varðandi vöruflutninga og ýmsa þjónustu.