Skip Helmingi fleiri skemmtiferðaskip koma til landsins í ár með 812 þúsund farþega. Samtök ferðaþjónustunnar segja skipakomur við þolmörk.
Skip Helmingi fleiri skemmtiferðaskip koma til landsins í ár með 812 þúsund farþega. Samtök ferðaþjónustunnar segja skipakomur við þolmörk. — Morgunblaðið/RAX
„Við erum á fullu að undirbúa þetta stóra sumar. Það er margt sem á eftir að gera og er þó nokkur mannaflaþörf í hafnsögunni sem gæti orðið erfiður hjallur,“ segir Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna um aukinn fjölda skemmtiferðaskipa á komandi ferðamannasumri

Tómas Arnar Þorláksson

tomasarnar@mbl.is

„Við erum á fullu að undirbúa þetta stóra sumar. Það er margt sem á eftir að gera og er þó nokkur mannaflaþörf í hafnsögunni sem gæti orðið erfiður hjallur,“ segir Gunnar Tryggvason hafnarstjóri Faxaflóahafna um aukinn fjölda skemmtiferðaskipa á komandi ferðamannasumri. Eins og greint hefur verið frá mun gestum með skemmtiferðaskipum fjölga um 80 prósent á árinu en það nemur samtals um 800 þúsund farþegum á skemmtiferðaskipum.

Um 75 manns starfa hjá Faxaflóahöfnum núna en að mati Gunnars þarf líklega að bæta um tíu starfsmönnum við fyrir komandi sumar. „Höfnin springur aldrei því við segjum nei þegar það er ekki pláss. Við erum löngu byrjuð að segja nei.“

Gunnar segir að allar skipakeðjur og fyrirtæki komi jöfn að samningaborðinu hjá þeim en að þau reyni að höfða sem mest til skipa sem skila sem mestu fyrir ferðaþjónustuna og þar af leiðandi í þjóðarkassann. „Við reynum að fá skip sem skila mestu af sér. Við erum með tvö markmið, það er að draga úr umhverfisáhrifum og hins vegar að fá sem mest úr rekstrinum fyrir samfélagið í heild sinni.“

Hann bendir á að Faxaflóahafnir séu með umhverfisgjöld, þannig að þau skip sem menga mest greiða mest. Hann viðurkennir þó að landtenging sé ekki enn komin fyrir skemmtiferðaskipin í höfnunum. Þegar skipin eru ekki landtengd þurfa þau að láta ljósavélina ganga á meðan þau eru í höfn til að halda rafmagni og er mengunin sem stafar af því töluverð. Hann segir að næst á dagskrá sé að taka í notkun landtengingu í vor fyrir litlu skemmtiferðaskipin sem er verið að byggja í Faxagarði. Aðspurður segir hann fjögur til fimm ár þangað til stærstu skipin verði landtengd.

Höf.: Tómas Arnar Þorláksson