Efling Samninganefnd Eflingar kom saman í gær til að semja gagntilboð til SA og lét taka af sér þessa mynd í hátíðarstemningu við það tækifæri.
Efling Samninganefnd Eflingar kom saman í gær til að semja gagntilboð til SA og lét taka af sér þessa mynd í hátíðarstemningu við það tækifæri. — Efling
Andrés Magnússon andres@mbl.is Samninganefnd stéttarfélagsins Eflingar samþykkti einróma að senda gagntilboð til Samtaka atvinnulífsins (SA) á fundi sínum í gær. Ekki liggur fyrir hvað í gagntilboðinu felst, en SA hafði ekki borist það í gærkvöld. Áður höfðu SA veitt frest til miðvikudags um afturvirka samninga.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Samninganefnd stéttarfélagsins Eflingar samþykkti einróma að senda gagntilboð til Samtaka atvinnulífsins (SA) á fundi sínum í gær. Ekki liggur fyrir hvað í gagntilboðinu felst, en SA hafði ekki borist það í gærkvöld. Áður höfðu SA veitt frest til miðvikudags um afturvirka samninga.

Af nýlegum yfirlýsingum Eflingar og SA verður að teljast afar ólíklegt að sátt náist um gagntilboðið. Samtök atvinnulífsins hafa talað skýrt um að þau bjóði aðeins útfærslu á samningnum við Starfsgreinasambandið (SGS) og að öðrum hugmyndum verði hafnað. Efling hefur verið jafnskýr um að hafna samningum um sömu laun og SGS og því ósennilegt að gagntilboðið reynist á aðra lund.

Þokist ekkert í samningsátt næstu dægrin kann að slitna upp úr viðræðum þegar á þriðjudag og hætt við að í framhaldinu slái í brýnu.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, hafði ekki fengið gagntilboð Eflingar þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gærkvöld og gat því ekki tjáð sig um það, en hann ítrekaði að SA gætu ekki og myndu ekki semja á öðrum nótum en gert hefði verið við SGS.

Ógeðfelld krafa um dilkadrátt

„Samtök atvinnulífsins geta ekki látið undan þeirri ógeðfelldu kröfu Eflingar að draga íslensku þjóðina í dilka eftir búsetu. Við rjúfum ekki þann óskrifaða samfélagssáttmála að meta fólk jafnt sama hvar það býr,“ segir Halldór Benjamín. „Þessi ætlaða sérstaða Eflingar – hvorki við né aðrir verkalýðsleiðtogar innan SGS sjáum að hún eigi við rök að styðjast.“

Hann minnir á að þegar hafi náðst samningar við meirihluta launþega á almennum vinnumarkaði, sem verði að standa við. „Það er ekki af þvermóðsku eða illgirni sem samningsafstaða SA er svo skýr, heldur vegna þess að trúnaður SA er við þá 80 þúsund launþega sem þegar hafa undirritað og samþykkt í atkvæðagreiðslu kjarasamninga við þrjú stór samflot, annars vegar SGS og hins vegar VR og iðnaðarmenn,“ segir hann.

„Ef SA semdu út fyrir þann ramma værum við að bregðast trausti þessa fólks. Samtök atvinnulífsins sem stærsti viðsemjandi landsins eru traustsins verð, alltaf og undir öllum kringumstæðum.“

En geta SA ekki teygt sig lengra?

„Við höfum lagt okkur í líma við að semja við Eflingu. Við höfum boðið þeim sams konar kjarasamning og önnur félög í SGS, hringinn um landið, hafa samþykkt, en til viðbótar erum við tilbúin að aðlaga samninginn að þeirra þörfum. 1., 2. og 3. markmið SA er að ná samningi við Eflingu, en ef samningsvilji er ekki til staðar þar er ljóst að Efling er í vanda stödd.“

Efling fékk vikufrest

SA buðu Eflingu í liðinni viku afturvirkan kjarasamning, efnislega samhljóða SGS-samningnum, að því tilskildu að hann yrði undirritaður ekki síðar en miðvikudaginn 11. janúar. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafnaði því hins vegar með öllu að semja um sömu launatöflu og félög SGS og vísaði til sérstöðu launþega á höfuðborgarsvæðinu, m.a. með tilliti til húsnæðiskostnaðar.

Verkalýðsforystan á landsbyggðinni segir þetta rangt, margt væri mun kostnaðarsamara úti á landi og laun almennt hærri í borginni. Bæði Vilhjálmur Birgisson, formaður SGS, og Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, hafa fordæmt að Efling etji þannig saman verkafólki á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Höf.: Andrés Magnússon