Það eru ekki allir Íslendingar sem gera sér grein fyrir því að stærsti hluti af framleiðslu raforku á Íslandi á sér stað í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Ef heildarraforkuframleiðsla Landsvirkjunar frá upphafi starfsemi hennar er lögð saman, þá hafa um það bil 35% af orkunni verið framleidd í stöðvarhúsum sem staðsett eru í sveitarfélaginu.
Á árinu 2022 kynnti Landsvirkjun metafkomu af rekstri sínum, á þriggja mánaða fresti. Aldrei hefur hagnaður fyrirtækisins verið meiri og það er gott að vita til þess að Landsvirkjun er í eigu þjóðarinnar. Á sama tíma hefur forstjóri Landsvirkjunar sagt opinberlega að raforka á Suðurlandi sé uppseld, það sé ekki meira rafmagn til skiptanna og því verði að virkja. Ofan á þetta hefur ríkisstjórn Ísland sett þau markmið að orkuskipti þjóðarinnar eigi að hafa náðst árið 2040.
Það er mikil uppbygging í gangi á Íslandi þessi misserin. Gert er ráð fyrir að byggja 35 þúsund nýjar íbúðir á næstu árum og þróun á fjölbreyttri atvinnustarfsemi er víða í farvatninu. Öll þessi uppbygging kallar á meiri orku. Orku til að standa undir auknum hagvexti og lífsgæðum á Íslandi.
Mikilvægasta orkusvæði Landsvirkjunar og íslensku þjóðarinnar er vatnasvæði Þjórsár og Tungnaár sem renna í gegnum fjögur sveitarfélög. Þau eru Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Ásahreppur, Rangárþing ytra og Flóahreppur. Þetta vatnasvæði hefur skilað um það bil 60% af allri raforkuframleiðslu Landsvirkjunar frá upphafi. Á þessu vatnasvæði er lykillinn að orkuskiptum þjóðarinnar. Óvirkjað afl á þessu svæði er í kringum 500 megavött. Eitt fyrsta skrefið á virkjunarvegferð Landsvirkjunar, til að beisla þessa orku, er Hvammsvirkjun, sem á að skila 95 megavöttum upp í hið óvirkjaða afl.
Hefja þarf samtal
Ég leyfi mér að fullyrða að orkuskipti þjóðarinnar gangi ekki eftir nema haldið verði áfram að virkja þetta mikilvæga orkusvæði. Þegar ríkisstjórn Íslands setti hins vegar markmið um orkuskipti fyrir Ísland átti ekkert samtal eða samráð sér stað um það við sveitarfélögin en samt er það svo að það eru þau sem þurfa að setja virkjanir og tengd mannvirki á aðal- og deiliskipulag sitt ásamt því að heimila framkvæmdir. Nauðsynlegt er að hefja samtalið milli ríkis og sveitarfélaga strax til þess að orkuskiptin raungerist.
Hvammsvirkjun er fyrsta stórvirkjunin sem mun rísa í neðri hluta Þjórsár. Aldrei áður hefur virkjanaframkvæmd af þessari stærðargráðu átt sér stað í byggð á Íslandi. Eftir meira en 20 ára undirbúning Hvammsvirkjunar hefur ekki verið fjallað ítarlega um samfélagsleg áhrif á nærumhverfi virkjunarinnar. Hvammsvirkjun er risastór framkvæmd. Hún kostar líklega í kringum 50 miljarða og mun skila einu til tveimur störfum á landsbyggðinni til frambúðar. Á sama tíma er orkan, sem framleidd verður í Hvammsvirkjun, forsenda fyrir þúsundum starfa sem verða til á Íslandi á næstu árum.
Ég er mikill virkjanasinni. Ég geri mér grein fyrir því hvað sú græna orka sem við framleiðum á Íslandi hefur gert fyrir lífsgæði þjóðarinnar. Sem sveitarstjóri og oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps er mér falin sú mikla ábyrgð að reka sveitarfélagið. Tryggja hagsmuni íbúanna. Tryggja það að samfélag okkar vaxi og dafni. Tryggja að lífsgæði okkar aukist. Er eðlilegt að breyta byggð í fallegri náttúru, sem er hluti af lífsgæðum íbúanna, yfir í virkjanasvæði sem hefur sjónrænt áhrifasvæði upp á meira en 50 ferkílómetra, til að tryggja eitt til tvö störf til framtíðar í nærumhverfi virkjunarinnar? Ég held af flestir viti svarið. Eitthvað meira þarf að koma til.
Ein af undirstöðum lífsgæða á Íslandi er orkuöflun sem á sér stað á landsbyggðinni. Samt er það skrifað í raforkulög að uppbygging atvinnu sem þarf mikla raforku raungerist aldrei í dreifbýli. Hvers vegna? Vegna þess að það er sérstök verðskrá fyrir dreifingu á raforku í dreifbýli og við sem búum á landsbyggðinni þurfum að greiða hærra verð fyrir dreifingu á rafmagninu en þeir sem búa í þéttbýli. Við þurfum að greiða hærra verð fyrir orku sem verður til í okkar nærumhverfi en þeir sem nota hana í þéttbýliskjörnum, tugum og hundruðum kílómetra frá framleiðslustað. Þessu þarf að breyta strax.
Ef orkuskipti þjóðarinnar eiga að að geta átt sér stað, þá þarf ríkisstjórn Íslands og þingmenn á Alþingi að hefja samtalið við sveitarstjórnir á landsbyggðinni, um sanngjarna skiptingu á auðlindinni sem orkan er. Tryggja þarf jafnt verð á dreifingu raforku í dreifbýli og í þéttbýli. Tryggja þarf að nærsamfélagið þar sem orkan á uppsprettu njóti ávinnings af þeim verðmætum sem hún skapar, ekki bara á framkvæmdatíma við byggingu virkjana, heldur sem hlutdeild í þeim verðmætum sem verða til á hverjum tíma með orkuframleiðslunni. Það samtal þarf að hefjast strax til að tryggja að farsæl orkuskipti þjóðarinnar nái fram að ganga fyrir árið 2040.
Höfundur er oddviti og sveitarstjóri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.