Varaskeifa Ævisaga Harrys í bókabúð.
Varaskeifa Ævisaga Harrys í bókabúð. — AFP
Óhætt er að segja, að Harry Bretaprins sé orðinn kóngur ljósvakans, að minnsta kosti um stund, slíka athygli hefur uppgjör hans við fjölskyldu sína vakið um heim allan. Ég kíkti á fyrsta þáttinn um þau hjónakornin, Harry og Meghan, sem birtist á…

Guðmundur Sv. Hermannsson

Óhætt er að segja, að Harry Bretaprins sé orðinn kóngur ljósvakans, að minnsta kosti um stund, slíka athygli hefur uppgjör hans við fjölskyldu sína vakið um heim allan.

Ég kíkti á fyrsta þáttinn um þau hjónakornin, Harry og Meghan, sem birtist á Netflix nýlega og fannst hann satt að segja ekki sérstaklega áhugaverður og gat ekki hugsað mér að horfa á fimm slíka melódramatíska þætti til viðbótar.

Það var því með hálfum huga að ég ákvað, á blaðamannslegum forsendum auðvitað, að sækja rafræna útgáfu af Spare, sjálfsævisögu Harrys, gegnum ljósvakann. Þessi ævisaga hefur fengið frekar kaldar kveðjur í breskum fjölmiðlum þótt hún seljist í bílförmum þar í landi. Sean Coughlan, konunglegur fréttaritari BBC, sagði m.a. að bókin væri að hluta til játningabók, að hluta til raus og stundum væri hún eins og lengsta fyllerísreiðiröfl sem fest hefði verið á prent.

En til að gera langa sögu stutta kom bókin mér á óvart. Og í bókarlok er maður nokkru nær skilningi á þeirri sálarkreppu, innilokunarkennd og ofsóknaræði sem varaskeifan Harry er að kljást við eftir að hafa verið eins konar sýningargripur alla ævi, þótt hann virðist á sama tíma taka forréttindunum, sem hann hefur notið, sem sjálfsögðum hlut.

Höf.: Guðmundur Sv. Hermannsson