Það fer ekki vel á því að senda almenningi leiðbeiningar um loftslagsmál úr einkaþotum

Fundarhöldum hinna ríku og frægu lýkur í Davos í Sviss í dag. Þá munu einkaþoturnar hefja sig á loft á ný eftir að hafa beðið eftir eigendum sínum í nokkra daga á meðan þeir ræddu málin og sendu skilaboð út um heimsbyggðina um nauðsyn þess að almenningur legði á sig auknar byrðar til að takast á við loftslagsbreytingar.

Umræður um loftslagið og mögulegar breytingar þess eru fyrirferðarmiklar á þessari samkomu og hafa orðið æ fyrirferðarmeiri með árunum þó megintilefnið hafi hingað til verið talið að ræða efnahagsmál heimsins. Núorðið virðist það ekki nægt tilefni til fundarhalda, meira máli skipti að útskýra fyrir öðrum að þeir verði að breyta hegðun sinni, eigi ekki illa að fara.

Einkaþoturnar sem fluttu fundargesti til Davos voru í ár um tvöfalt fleiri en í fyrra og teljast í þúsundum. Reiknað hefur verið út að útblásturinn sé á við 350 þúsund bíla. Athyglisvert er að stór hluti þessara flugvéla kemur ekki langt að, flýgur jafnvel innan við hundrað kílómetra á fundarstað.

Ekki þarf að undra að ýmsir hafi orðið til að gagnrýna tvískinnunginn í því sem frá Davos berst um þessar mundir, en auk loftslagsmála, sem virðast fyrirferðarmest, þá er ójöfnuður einnig mikið áhyggjuefni þeirra sem nú svífa á brott frá Davos í einkaþotum sínum.

Umræðuvettvangur á borð við þann í Davos getur verið gagnlegur og kallað fram hugmyndir, en eins og komið er týnast þær því miður í tvískinnungi og sýndarmennsku.