Hernaðaraðstoð Danski herinn ætlar að senda 19 Caesar-hábyssur af franskri gerð til Úkraínuhers, en vesturveldin ræða frekari aðstoð í dag.
Hernaðaraðstoð Danski herinn ætlar að senda 19 Caesar-hábyssur af franskri gerð til Úkraínuhers, en vesturveldin ræða frekari aðstoð í dag. — AFP/Henning Bagger
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Þýsk stjórnvöld hafa gefið til kynna að þau muni ekki veita leyfi til þess að senda Leopard 2-orrustuskriðdreka til Úkraínu, nema Bandaríkjastjórn ákveði fyrst að senda M1 Abrams-orrustuskriðdrekann þangað. Sú krafa er hins vegar talin óaðgengileg, þar sem Abrams-skriðdrekinn þyki flóknari en aðrir í rekstri, en hann er meðal annars búinn þotuhreyfli og krefst mikillar þjálfunar.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Þýsk stjórnvöld hafa gefið til kynna að þau muni ekki veita leyfi til þess að senda Leopard 2-orrustuskriðdreka til Úkraínu, nema Bandaríkjastjórn ákveði fyrst að senda M1 Abrams-orrustuskriðdrekann þangað. Sú krafa er hins vegar talin óaðgengileg, þar sem Abrams-skriðdrekinn þyki flóknari en aðrir í rekstri, en hann er meðal annars búinn þotuhreyfli og krefst mikillar þjálfunar.

Gert er ráð fyrir að spurningin um Leopard-skriðdrekana verði efst á baugi á fundi varnarmálaráðherra vesturveldanna í Ramstein-flugstöðinni í dag, en Finnar, Danir og Pólverjar hafa boðist til þess að senda hluta af sínum skriðdrekum til Úkraínu. Það gæti hins vegar oltið á því að þýsk stjórnvöld veiti leyfi sitt, þar sem Þjóðverjar eru framleiðsluríki skriðdrekans.

Pólsk stjórnvöld eru hins vegar sögð orðin leið á tilhneigingu þýskra stjórnvalda til þess að draga lappirnar í vopnasendingum til Úkraínu. Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, gaf til kynna í gær að Pólverjar myndu senda skriðdrekana, sama hvað Þjóðverjar segðu. „Leyfi er aukaatriði. Við fáum það annaðhvort fljótlega, eða við gerum það sem við teljum rétt,“ sagði Morawiecki og bætti við að geta Úkraínumanna til að verja sig gæti oltið á því að þeir fengju skriðdrekana.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði í gær í ávarpi sínu á Davos-ráðstefnunni, sem flutt var í gegnum fjarfundabúnað, að nú væri ekki rétti tíminn til þess að hika. „Þegar einhver segir ég mun gefa þér skriðdreka ef einhver annar gerir það líka; ég tel það ekki vera rétta „strategíu“,“ sagði Selenskí.

Svíar senda Archer

Varnarmálaráðherrar um fimmtíu ríkja munu hittast í dag í Ramstein til þess að ræða hvernig best sé hægt að aðstoða Úkraínu frekar gegn innrás Rússa. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, sagði að helstu skilaboðin frá þeim fundi yrðu að send yrðu meiri vopn, þyngri og háþróaðri, þar sem Úkraínustríðið snerist um að verja vestræn gildi.

Sænsk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau myndu senda Archer-stórskotalið til Úkraínu, en það er sjálfkeyrandi fallbyssa sem getur hæft skotmörk í 30-50 kílómetra fjarlægð. Þá tilkynntu stjórnvöld í Eistlandi að þau myndu senda hernaðaraðstoð sem næmi rúmlega einni prósentu af þjóðarframleiðslu landsins til Úkraínu.

Þá tilkynntu dönsk stjórnvöld í gær að þau ætluðu sér að senda 19 Caesar-hábyssur til Úkraínu, en þær eru framleiddar í Frakklandi. Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, sagði svo í gær að Bretar myndu senda um 600 Brimstone-eldflaugar til Úkraínumanna, sem hafa nýst vel til árása á landher Rússa, en Bretar tilkynntu um síðustu helgi að þeir myndu senda 14 Challenger 2-orrustuskriðdreka til Úkraínuhers.

Rússar ósáttir með aðstoð

Rússnesk stjórnvöld hafa ekki tekið vel í áform vesturveldanna um að senda Úkraínumönnum frekari vopn. Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði í gær að sendingar á vopnum sem gætu hæft rússneskt landsvæði gætu „fært átökin á alveg nýtt stig,“ sem myndi hafa slæm áhrif á öryggi Evrópu.

Anatolí Antonov, sendiherra Rússa í Bandaríkjunum, hótaði því svo að Rússar myndu eyðileggja öll vopn sem vesturveldin senda til Úkraínu, og hefna sín ef Úkraínumenn skytu á Rússland eða Krímskaga. „Það er einfaldlega ómögulegt að sigra Rússland,“ sagði Antonov.

Þá sagði Dmitrí Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands, að stuðningur vesturveldanna við Úkraínu gæti leitt til kjarnorkustríðs. „Að kjarnorkuveldi tapi í hefðbundnu stríði getur ýtt undir upphaf kjarnorkustríðs,“ sagði Medvedev og bætti við að slík veldi hefðu aldrei tapað stríðum þar sem örlög þeirra lægju undir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Medvedev setur fram hótanir um kjarnorkustríð, en hann gaf til kynna í september síðastliðnum að Rússar kynnu að beita kjarnavopnum í Úkraínu. Peskov sagði í gær að ummæli Medvedevs væru í samræmi við kjarnorkustefnu Rússlands, sem kveður á um að þeim skuli bara beitt í varnarskyni ef framtíð rússneska ríkisins sé í hættu.

Ekkert að marka hótanirnar

Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sagði hins vegar að ekkert væri að marka kjarnorkuhótanir Rússa. „Pútín vill setja þetta fram sem kjarnorkueinvígi milli NATO og Rússlands,“ sagði Johnson á morgunverðarfundi um Úkraínu á Davos-ráðstefnunni.

Bætti Johnson við að það væri þvættingur og að Pútín vildi bara að við værum skelkuð, en að það myndi aldrei gerast, meðal annars vegna þess að Rússland myndi um leið missa stuðning allra ríkja sem nú þættust vera hlutlaus í átökum Úkraínu og Rússlands. Hvatti Johnson til þess að Úkraínumenn fengju vestræna skriðdreka þegar í stað. „Við höfum nákvæmlega engu að tapa.“

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson