Sigurður Sveinn Þorbergsson er fæddur 20. janúar 1963 í Neskaupstað og ólst þar upp. Ég var týpískur bæjarstrákur, var upp í fjöllunum og fjörunum og var að veiða á bryggjunum eins ungur og ég man eftir mér. Ég byrjaði í unglingavinnunni þrettán ára og vann síðan í frystihúsinu og slippnum en var mest í málningarvinnu hjá móðurbróður mínum.“
Sigurður hóf tónlistarnám við Tónskóla Neskaupstaðar hjá Haraldi Guðmundssyni og lék með hljómsveitum þar eystra svo sem Kvöldverði á Nesi. „Ég var ekki það ungur þegar ég byrjaði að læra á hljóðfæri, var fyrst á víólu níu ára, svo fylgdu hin hljóðfærin á eftir, básúnan sem ég endaði á og rafmagnsgítarinn sem ég spilaði á í ballbransahljómsveitum fram yfir tvítugt. Tónlistarkennarinn minn valdi eiginlega fyrir mig básúnuna, því þá vantaði básúnuleikara í skólahljómsveitina og ástæðan fyrir því að ég lærði á víólu en ekki fiðlu var af því að þá vantaði meðlim í kvartett.“
Í Reykjavík hélt tónlistarnámið áfram hjá Janine Wilkinson í Tónskóla Sigursveins og lauk Sigurður þaðan prófi 1984 ásamt stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð. Þá tók við framhaldsnám í Guildhall School of Music and Drama í London. Hann lauk þar prófi sem básúnuleikari á „performance„ braut 1989 og hóf sama ár störf við Sinfóníuhljómsveit Íslands.
„Það gerist sjálfkrafa eins og hjá svo mörgum af hverju maður ákveður að leggja tónlistina fyrir sig. Þetta fer að ganga það vel að maður er beðinn um að spila hingað og þangað og dettur inn í þetta. Þegar ég svo var búinn með menntaskólann þá var ekkert meira spennandi en að halda áfram í tónlistinni. Ég átti líka margar góðar fyrirmyndir frá Neskaupstað því tónlistarlífið þar var mjög ríkt á þessum árum. Fyrrverandi nemandi kennara míns fyrir austan var t.d. 1. trompetleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Lárus Sveinsson, og við unnum síðar saman. Þannig að það að geta haft tónlist að atvinnu þótti mér að minnsta kosti bara eðlilegt. Fyrir nú utan hvað það er skemmtilegt.“
Sigurður starfar enn við SÍ og hefur verið leiðari í básúnudeild síðastliðin ellefu ár. Þrír básúnuleikarar eru í Sinfóníunni, en sá sem er leiðari spilar efstu röddina og sólóin. Sigurður hefur leikið kammermúsík, m.a. með Caput og Kammersveit Reykjavíkur og komið fram sem einleikari við ýmis tækifæri. „Ég er nýbúinn að spila með Caput í janúar og svo verða aðrir tónleikar með þeim á Myrkum músíkdögum.“
Sigurður hefur setið í stjórn SÍ í 6 ár, verið formaður starfsmannafélagsins og setið í samninganefndum FÍH.
Helstu áhugamál fyrir utan tónlist eru útivist, ferðalög, dans og hjólreiðar. „Ég er svolítil alæta á tónlist, held að það markist af því ég var duglegur að spila í einskonar poppbandi og svo spiluðum við „progressive“ rokk þegar við vorum ekki að spila á böllum. Við konan mín dönsum svolítið salsa, höfum verið á námskeiðum og höfum sóst í að dansa þegar við erum erlendis á ferðalögum. Ég er í samgönguhjólreiðum, en fer ekki út á þjóðvegina að hjóla á 100 km hraða. Ég fer á hjólinu í vinnuna og sama hvar við erum erlendis þá leigjum við okkur alltaf hjól og hjólum um í borgunum. Svo reynum við að fara sem flest sumur austur í Neskaupstað og hitta fjölskylduna fyrir austan og norðan.“
Fjölskylda
Eiginkona Sigurðar er Linda Sólveig Birgisdóttir, f. 11.2. 1965, grunnskólakennari. Þau eru búsett í Háaleitishverfi í Reykjavík. Foreldrar Lindu voru hjónin Birgir Guðmundsson, f. 7.8. 1943, d. 13.1. 1999, bifvélavirki, og Helena Svavarsdóttir, f. 15.12. 1947, d. 28.8. 2010, skrifstofumaður. Þau voru búsett í Reykjavík.
Börn Sigurðar og fyrri maka, Judith Pamelu Tobin, f. 3.4. 1965, tónlistarmanns eru 1) Matthías Ingiberg Sigurðsson, f. 5.2. 1990, tónlistarmaður, maki: Rebekka Nilson, leikstjóri í Noregi; 2) Hannah Rós Sigurðardóttir, f. 3.11. 1992, stundar sálfræðirannsóknir við HR; 3) Alexander Sigurðsson, f. 12.2. 1998, lögreglumaður, maki: María Bóel Guðmundsdóttir söngnemi. Börn Lindu af fyrra hjónabandi: 1) Steinar Hrafn, f. 16.11. 1992, d. 6.9. 2021; 2) Sandra Hrönn, f. 11.7. 1994, nemi í sjúkraþjálfun í Kaupmannahöfn, maki: Bjarki Sigurðsson bakari. Sonur þeirra er Daníel Loki Bjarkason, f. 30.10. 2021.
Systkini Sigurðar eru Símon Hrafn Vilbergsson, f. 6.5. 1957, málarameistari á Akureyri; Tómas Lárus Vilbergsson, f. 26.5. 1958, kennari á Akureyri; Berglind Þorbergsdóttir, f. 17.10. 1965, bókari á Akureyri, og Sigrún Þorbergsdóttir, f. 9.3. 1973, grunnskólakennari á Akranesi.
Foreldrar Sigurðar voru hjónin Þorbergur Sveinsson, f. 30.12. 1923, d. 8.7. 2016, frá Barðsnesi við Norðfjörð, húsasmíðameistari í Neskaupstað, og Ingibjörg Símonardóttir, f. 15.6. 1935, d. 22.1. 2021, húsfreyja og verkakona. Þau bjuggu síðustu árin í Mosfellsbæ.