Jafntefli Daninn Magnus Landin Jakobsen með Króatann Ivan Martinovic í fanginu í hnífjöfnum spennutrylli þjóðanna í Malmö í gærkvöld.
Jafntefli Daninn Magnus Landin Jakobsen með Króatann Ivan Martinovic í fanginu í hnífjöfnum spennutrylli þjóðanna í Malmö í gærkvöld. — AFP/Johan Nilsson
Þýskaland, Noregur og Egyptaland eru öll í afar góðri stöðu í milliriðlum heimsmeistaramóts karla í handbolta eftir sigurleiki í gær og eru öll með fullt hús stiga. Dönsku heimsmeistararnir eru líka taplausir og standa ágætlega að vígi en þeir máttu …

HM 2023

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þýskaland, Noregur og Egyptaland eru öll í afar góðri stöðu í milliriðlum heimsmeistaramóts karla í handbolta eftir sigurleiki í gær og eru öll með fullt hús stiga.

Dönsku heimsmeistararnir eru líka taplausir og standa ágætlega að vígi en þeir máttu þó sætta sig við jafntefli gegn baráttuglöðum Króötum í Malmö í gærkvöld, 32:32.

Holland, Barein og Króatía eru þau þrjú lið sem einnig geta gert sér vonir um að komast áfram í átta liða úrslitin en standa þó öll verr að vígi með tvö til þrjú töpuð stig.

Serbar eru úr leik eftir ósigur gegn Norðmönnum og sama er að segja um stigalausu liðin í milliriðlum þrjú og fjögur, Katar, Argentínu, Belgíu og Bandaríkin.

Danir og Króatar mættust í spennutrylli kvöldsins þar sem jafnt var á nánast öllum tölum í síðari hálfleik og hvorugt liðið nýtti færi til að skora sigurmark á síðustu mínútunni. Króatar hefðu galopnað milliriðilinn með sigri. En þar sem Danir eiga fyrir höndum fyrirfram unninn leik gegn Bandaríkjunum verður líkast til fátt sem kemur í veg fyrir að þeir og Egyptar fari áfram úr fjórða riðli.

Simon Pytlick skoraði 9 mörk fyrir Dani og Mikkel Hansen 8. Marin Sipic skoraði 9 mörk fyrir Króata og Filip Glavas 8.

Norðmenn voru lengi vel undir gegn Serbum en sneru blaðinu við í síðari hálfleik og sigruðu, 31:28.

Sander Sagosen og Sebastian Barthold skoruðu 5 mörk hvor fyrir Norðmenn en Bogdan Radivojevic, Petar Dordic og Milos Orbovic skoruðu 5 mörk hver fyrir Serba.

Þjóðverjar með yfirburði

Þjóðverjar, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, keyrðu hreinlega yfir Argentínumenn í fyrri hálfleik en staðan var 24:11 að honum loknum. Þeir hægðu aðeins á ferðinni en lokatölur urðu 39:19.

Johannes Golla, Lukas Mertens og Patrick Groetzki voru markahæstir Þjóðverja með 5 mörk hver og Pedro Martinez skoraði 5 mörk fyrir Argentínu.

Hollendingar unnu upp sex marka forskot Katarbúa og sigruðu 32:30 eftir að hafa verið undir, 15:19, í hálfleik.

Rutger De Velde og Kay Smits skoruðu 8 mörk hvor fyrir Holland en Ahmad Madadi skoraði 11 mörk fyrir Katar.

Egyptar voru ekki í teljandi vandræðum með Belga og sigruðu 33:28 eftir að staðan var 22:15 í hálfleik.

Mohsen Mahmoud skoraði 7 mörk fyrir Egyptaland og Yehia Elderaa 6 en Sebastien Danesi skoraði 9 mörk fyrir Belgíu.

Leikur Egyptalands og Barein á morgun ræður miklu um framhaldið en Egyptar eru líklegir til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum áður en þeir mæta Dönum í lokaleik riðilsins á mánudagskvöldið.

Ævintýri hjá Barein?

Barein vann öruggan sigur á Bandaríkjunum, 32:27, eftir að hafa haft ágæta forystu allan tímann.

Husain Alsayyad skoraði 9 mörk fyrir Barein en Samuel Hoddersen skoraði 6 mörk fyrir bandaríska liðið.

Aron Kristjánsson og hans menn í Barein eiga því enn möguleika á að komast í átta liða úrslit en þeir eiga eftir afar erfiða leiki gegn Egyptalandi og Króatíu. Komist þeir ofar en í fjórða sæti riðilsins yrði það afar óvænt niðurstaða.

Höf.: Víðir Sigurðsson