Upplýsandi Auglýsingahlé lýsir upp skammdegið, örvar forvitnina og greiðir aðgang okkar að listinni, skrifar rýnir m.a. um sýningu Sigurðar. Hér má sjá eitt af auglýsingaskiltunum sem sýndu verk hans.
Upplýsandi Auglýsingahlé lýsir upp skammdegið, örvar forvitnina og greiðir aðgang okkar að listinni, skrifar rýnir m.a. um sýningu Sigurðar. Hér má sjá eitt af auglýsingaskiltunum sem sýndu verk hans. — Ljósmynd/Hörður Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Auglýsingaskilti Billboard Rétthermi ★★★★· Sýning á verkum Sigurðar Ámundasonar á ljósaskiltum og í strætisvagnaskýlum í Reykjavík 1.-3. janúar 2023.

Myndlist

Karina Hanney Marrero

Í byrjun janúar opnaði óvenjuleg sýningaröð á götum borgarinnar, Auglýsingahlé Billboard, sem eins og nafnið gefur til kynna fer fram á upplýstum auglýsingaskiltum sem staðsett eru við helstu umferðaræðar Reykjavíkur og nágrennis. Síðastliðið haust efndi einkahlutafélagið Billboard til opinnar samkeppni, í annað sinn. Þar gafst listamönnum færi á að senda inn tillögur að verkum til að prýða um 450 auglýsingaskilti, víðs vegar um borgina. Fyrir árið 2022 valdi dómnefnd, sem skipuð er fulltrúum frá Billboard, Listasafni Reykjavíkur, Y gallery og Sambandi íslenskra myndlistarmanna, listamanninn Hrafnkel Sigurðsson til að hefja þessa sýningarfrumraun. Í ár voru teikningar leikstjórans og myndlistarmannsins Sigurðar Ámundasonar, Rétthermi (2022), valdar til sýningar. Teikningar Sigurðar eru unnar með kúlupenna, blýanti, tússi og trélitum og eru því áferðarmiklar, efnistökin fínleg og því áhugavert að sjá þau í stafrænni yfirstærð á þessum auglýsingamiðli.

Myndefni Sigurðar er gjarnan ádeiluskotið, fyndið, kunnuglegt og tekur á blæbrigðum mannlegrar tilveru. Sjálfur lýsir hann Billboard-verkunum sem óræðum póststrúktúralisma. Merkingarlaus vörumerki og tákn eða lógó verði leiðarvísar sem vísa ýmist í sjálf sig eða hreinlega í ekki neitt merkingarbært. Í viðtali útskýrði Sigurður: „Lógóin eru í raun og veru hvort tveggja. Þetta eru upplýsingar og þetta er líka sjálfsmynd einhvers fyrirtækis eða hugmyndafræði. En hvorki upplýsingarnar né sjálfsmyndin komast til skila. Svo þetta fellur algjörlega um sjálft sig.“

Uppbrotið fangar athyglina

Sýningaröðin Auglýsingahlé Billboard flokkast sem list í almannarými, en þrátt fyrir hverfulleika myndbirtingar af þessu tagi, þá eiga verkin í opnu samtali við almenning, rétt eins og staðbundnir skúlptúrar, veggmyndir og minnismerki sem verða á vegi borgarbúa. List í almannarými er nær almenningi, þannig er hún gerð aðgengilegri og fær stað í hversdagsleikanum. Sjónræn áhrif þessarar sýningar eiga þó meira sameiginlegt með veggjalist, þar sem stafrænu verkin brjóta upp borgarlandslagið á skemmtilegan og litríkan hátt. Uppbrotið sem fylgir sýningu af þessu tagi, sem og öðrum sýningum sem staðsettar eru í almannarými, má skoða sem eins konar uppfærslu á umhverfinu, sem og tækifæri til að endurskoða og jafnvel taka upp þráðinn við önnur staðbundin verk. En það er einmitt lykilhlutverk listar í almannarými, að vera í stöðugu samtali við nærumhverfið, borgarbúa, tíðarandann og aðkallandi málefni líðandi stundar. Í þessu samhengi eru verk Sigurðar á sýningunni sérstaklega áhugaverð, enda skírskota þau háðslega til auglýsingamiðilsins og sjálfhverfrar neyslumenningar.

Frá LA til Reykjavíkur

Útfærslur á sýningarverkefnum á auglýsingaskiltum má finna víðs vegar í heiminum en Bandaríkin hafa verið þar fremst í flokki. Möguleg fyrirmynd Auglýsingahlés gæti því hæglega verið The Billboard Creative sem hefur efnt til sýninga af þessu tagi frá árinu 2015 með góðum árangri. Sýningar þeirra eru gjarnan samsýningar og þeim er stýrt af nýjum tilnefndum sýningarstjóra á hverju ári. Á meðal þeirra listamanna sem hafa sýnt á auglýsingaskiltum í Los Angeles eru George Bates, Laura Niubo, Hughes Holland, Ed Ruscha, Ana Medina, Mona Kuhn og Lawrence Weiner. The Billboard Creative er staðsett í Los Angeles í Bandaríkjunum sem er ein umferðarþyngsta borg í Bandaríkjum; vegkanturinn myndar því mikilvægan vettvang til auglýsinga og myndlistarsýninga sömuleiðis. Einkahlutafélagið Billboard hefur því séð sér leik á borði í Reykjavík, þar sem bílaumferð hefur aukist að jafnaði um 5-20% á milli ára á Reykjavíkursvæðinu. Við, almenningur, njótum góðs af þessu sýningarframtaki, sem lýsir upp skammdegið, örvar forvitnina og greiðir aðgang okkar að listinni á meðan við sitjum á rauðu ljósi.