Hressandi Að fara í sund er ómissandi hjá mörgum Íslendingnum.
Hressandi Að fara í sund er ómissandi hjá mörgum Íslendingnum. — Morgunblaðið/Eggert
Heldur meira var að gera en venjulega í sundlaug Seltjarnarness í gærmorgun, en hún var þá eina sundlaugin á höfuðborgarsvæðinu sem opin var. Talið var nauðsynlegt að loka öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan þá sem finna má á…

Anton Guðjónsson

anton@mbl.is

Heldur meira var að gera en venjulega í sundlaug Seltjarnarness í gærmorgun, en hún var þá eina sundlaugin á höfuðborgarsvæðinu sem opin var. Talið var nauðsynlegt að loka öllum sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan þá sem finna má á Seltjarnarnesi, vegna þess mikla kuldakasts sem ríkt hefur undanfarið.

„Fólk kemur aðallega úr Vesturbæjarlauginni hingað til okkar,“ segir Ingólfur Klausen, yfirvaktstjóri sundlaugarinnar á Seltjarnarnesi, í samtali við blaðamann. „Þeir eru með hlaupahópa sem eru alltaf komnir af stað snemma á morgnana, það er það eina sem við höfum tekið eftir í dag. Og það er heldur meira,“ segir Ingólfur en hann segir þann hóp sundlaugargesta sjálfa kalla sig „flóttamenn“ vegna lokunar Vesturbæjarlaugar.

Unnt er að halda lauginni á Nesinu opinni sökum þess að þar má finna hitaveitu á vegum sveitarfélagsins.

„Það er það sem breytir öllu. Það er alla vega enn nægur þrýstingur á okkur. Það var ansi kalt í [gær]morgun, 14 gráða frost. Það munar því að það er ekki vindur. Um leið og það hreyfir einhvern vind þá verður þetta allt erfiðara og þá kólnar allt niður,“ segir Ingólfur og bætir við að góð stemning hafi ríkt í lauginni.

Höf.: Anton Guðjónsson