Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
Sala á íslenskum ostum jókst verulega á nýliðnu ári, miðað við árin á undan. Einnig seldust bragðbættir mjólkurdrykkir vel, þar á meðal próteindrykkir og gamla góða kókómjólkin. Þrátt fyrir allar breytingar í neyslu mjólkurafurða, þá er nýmjólkin í bláu og hvítu fernunum langsöluhæsti mjólkurdrykkurinn og íslenskt smjör selst meira en nokkru sinni áður.
Árið var sannarlega gott söluár fyrir Mjólkursamsöluna og íslenska kúabændur. Aðalsteinn H. Magnússon, sölu- og markaðsstjóri MS, segir að stór hluti af aukningunni stafi af því að ferðafólk fór að koma aftur til landsins í stórum stíl. Upplýsingarnar hér snúa eingöngu að mjólkurafurðum sem framleiddar eru á Íslandi. Innfluttar afurðir bætast þar við.
Próteinríkar vörur seljast
Sá ostur sem jók markaðshlutdeild sína mest í fyrra var ferskur mozzarella-ostur. Aðalsteinn segir að hann sé í tísku núna. Fólk noti hann mikið á pítsur og í margs konar matargerð, í staðinn fyrir hinn hefðbundna mozzarella-ost. Segir hann að rekja megi aukna sölu á osti bæði til almenna markaðarins hér heima og fjölgunar erlendra ferðamanna. Það síðarnefnda sjáist á aukinni sölu osta til hótela og veitingastaða.
Aukin sala á ostum er aðalskýring þess að heildarsala mjólkur, umreiknaðri í prótein, jókst verulega. Jókst sá efnisþáttur meira en á fituríkari afurðunum og þar með minnkaði bilið á milli fituríkari afurðanna og þeirra próteinríkari sem valdið hefur mjólkuriðnaðinum erfiðleikum í sölu og tekjutapi.
Til viðbótar góðri sölu í ostum eykst sala á skyri og ýmsum gerðum af bragðbættri mjólk. Þar má nefna íþróttadrykkinn Hleðslu, próteindrykk úr skyri og kókómjólk. Próteinríkar afurðir leggjast á árarnar með ostunum í að rétta af hlutfallið á milli efnisþátta í heildarsölu mjólkur.
Einnig eykst heildarsala á fituríkum afurðum umtalsvert. Aðalsteinn nefnir íslenska smjörið sem er uppistaðan í vöruflokknum viðbit sem sýnt er í grafinu hér að ofan. Telur hann að aldrei áður hafi selst jafn mikið af smjöri.
Mikil framleiðsla
Eftir að nýmjólkin hafði í mörg ár farið halloka fyrir léttmjólk og undanrennu hefur orðið viðsnúningur á allra síðustu árum. Nú selst helmingi meira af nýmjólk en fituskertri mjólk en ekki er langt síðan hlutfallið var þveröfugt. Aðalsteinn segir að nú sé almennt viðurkennt að það sé í lagi að neyta fituríkra vara í hófi. Söluhæsti einstaki mjólkurdrykkurinn er D-vítamínbætt nýmjólk.
Framleiðsla á mjólk minnkaði lítillega á nýliðnu ári, eins og komið hefur fram. Það var vegna samdráttar á fyrri hluta ársins. Það breyttist á síðari hluta ársins og er framleiðslan nú mikil og í samræmi við væntingar þeirra sem selja mjólkina. Þeir sjá fram á aukna sölu á komandi ári og var heildargreiðslumark í mjólk aukið um 2,5 milljónir lítra til að stuðla að því að næg mjólk fengist til þess að hægt yrði að framleiða allar þær vörur sem markaðurinn kallar eftir.