Sigur Pavel Ermolinskij stýrði Tindastóli í fyrsta skipti og segir hér nýjum lærisveinum sínum fyrir verkum í leikhléi í Skógarseli.
Sigur Pavel Ermolinskij stýrði Tindastóli í fyrsta skipti og segir hér nýjum lærisveinum sínum fyrir verkum í leikhléi í Skógarseli. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Njarðvík og KR léku bæði sinn þúsundasta leik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gærkvöld. Frá því úrvalsdeildin var stofnuð árið 1978 eru þetta einu félögin sem hafa verið í deildinni á hverju einasta tímabili og þau náðu því áfanganum á sama tíma

Körfuboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Njarðvík og KR léku bæði sinn þúsundasta leik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gærkvöld. Frá því úrvalsdeildin var stofnuð árið 1978 eru þetta einu félögin sem hafa verið í deildinni á hverju einasta tímabili og þau náðu því áfanganum á sama tíma.

Njarðvíkingar héldu upp á hann með góðum sigri gegn Hetti á heimavelli, 109:90, á meðan KR-ingar unnu langþráðan heimasigur á Breiðabliki, 112:109. Þúsundasta leiknum var því hægt að fagna innilega, bæði í Ljónagryfjunni og á Meistaravöllum.

Njarðvíkingar voru með undirtökin allan tímann gegn Hetti og náðu mest 20 stiga forystu í síðari hálfleiknum.

Mario Matasovic skoraði 26 stig fyrir Njarðvík og tók 9 fráköst, Lisandro Rasio skoraði 18 stig og Dedrick Deon Basile var með 18 stig og 13 stoðsendingar.

Timothy Guers skoraði 21 stig fyrir Hött og tók 9 fráköst, Adam Eiður Ásgeirsson skoraði 17 stig og Obadiah Nelson Trotter 16.

Sigur eftir 8 töp í röð

KR-ingar höfðu tapað átta leikjum í röð og ekki unnið heimaleik á tímabilinu þegar skotglaðir Blikar komu í heimsókn á Meistaravelli í gærkvöld.

Eftir sveiflukenndan leik náðu KR-ingar góðu forskot á lokakaflanum sem Blikar réðu ekki við og fögnuðu loks sigri. Þeir eru þó áfram neðstir en eru nú aðeins tveimur stigum á eftir ÍR og Þór.

Þorvaldur Orri Árnason skoraði 20 stig fyrir KR, Veigar Áki Hlynsson 19, Antonio Williams 18 og Aapeli Alanen 16.

Jeremy Smith skoraði 29 stig fyrir Breiðablik, Everage Richardson 21 og Julio Calver De Assis 20.

Frábær leikur Hilmars

Hilmar Smári Henningsson átti frábæran leik með Haukum þegar þeir sigruðu Þórsara í Þorlákshöfn, 97:88. Hilmar skoraði 26 stig í leiknum og átti sjö stoðsendingar. Norbertas Giga fylgdi honum eftir með 24 stig og 8 fráköst og Darwin Davis skoraði 18 stig.

Leikurinn var hnífjafn fram á lokamínúturnar en þá sigu Hafnfirðingarnir fram úr.

Vincent Shahid skoraði 25 stig fyrir Þór og átti 8 stoðsendingar og þeir Styrmir Snær Þrastarson og Pablo Hernandez skoruðu 17 stig hvor.

Pavel vann í fyrsta leik

Pavel Ermolinskij stýrði Tindastóli í fyrsta skipti í gærkvöld þegar Skagfirðingarnir heimsóttu ÍR-inga í Skógarselið. Eftir jafna baráttu lengi vel tóku Tindastólsmenn völdin í fjórða leikhluta og unnu að lokum með fimmtán stiga mun, 96:81.

Tindastóll tók þar með skref í áttina að fjórum efstu liðunum en frammistaða liðsins í vetur hefur valdið vonbrigðum og leiddi til þjálfaraskiptanna.

Pétur Rúnar Birgisson skoraði 20 stig fyrir Tindastól, Taiwo Badmus og Antonio Woods 16 hvor.

Luciano Massarelli skoraði 21 stig fyrir ÍR og Ragnar Örn Bragason 14.

Höf.: Víðir Sigurðsson