Á miðvikudaginn laumaði Ingólfur Ómar að mér einni vísu enn um kuldann sem ríkt hefur undanfarna daga: Oddhent. Emja náföl ýlustrá ísagjáa hrakin. Falin snjá er foldarbrá frera gráum þakin. Einar Jochumsson orti: Grimmdarfrost um borg og bý blöskrar …

Á miðvikudaginn laumaði Ingólfur Ómar að mér einni vísu enn um kuldann sem ríkt hefur undanfarna daga:

Oddhent.

Emja náföl ýlustrá

ísagjáa hrakin.

Falin snjá er foldarbrá

frera gráum þakin.

Einar Jochumsson orti:

Grimmdarfrost um borg og bý

blöskrar manna kyni

frýs nú allt nema orð Guðs í

Einari Jochumssyni.

Og á Boðnarmiði orti Ólafur Stefánsson:

Frýs nú allt sem frosið getur

frerinn smýgur undir skinn.

Ekki vil ég annan vetur

eins hér lifa fyrst um sinn.

Pétur Stefánsson yrkir tvær að þessu sinni:

Hárin falla af höfði mér,

húð á maga stækkar.

Ákefð minnkar, aflið þver,

ástarleikjum fækkar.

Fimin minnkar, fölnar kraftur,

fjörið dofnar, magnast hnig.

Skyldi ég verða ungur aftur

það óskaplega gleddi mig.

Helgi Björnsson skrifar: „Fór um daginn í apótekið á Hvammstanga til að kaupa lyf og þurfti að bíða eftir samþykki lyfjafræðinga á Sauðárkróki. Meðan á biðinni stöð varð þetta til“:

ÁSTANDIÐ er illt að sjá

og afleitt mig í kringum

heilsu mína ef ég á

undir Skagfirðingum

Guðbrandur Þorkell Gudbrandsson svaraði:

Húnvetninga heilög vé

helguð dyggðum sönnum

þola ekki að saurguð sé

af syndugum hestamönnum.

Davíð Hjálmar Haraldsson orti:

Í uppsveitum Önundarfjarðar
ég æfingar stundaði harðar.
Þar var svo bratt
að þegar ég datt
þá var rúm tomma til jarðar.

„Tveir gaukar“ eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Við erum í búri víst báðir

og brauðgjöfum annarra háðir,

úr vírneti er þitt

en vananum mitt

og bíðum þar – brauðgjöfum háðir.


Ljóðabókin „Vísur“ eftir Þór Stefánsson kom út á síðasta ári. Þar er margt vel kveðið og nær allt undir ferskeyttum hætti. „Gleðigjafi“ heitir þetta ljóð:

Lausavísan létt og kát
lyftir okkar geði
þótt við liggjum þarna mát
á þungum sjúkrabeði.

Lausavísan léttir oss
lund í raun og sorgum.
Hún er eins og kærleikskoss
á kinn í sveit og borgum.

Það er huggun harmi gegn
ef heilsufarið er í krísu
og lífið virðist mér um megn
að mega njóta lausavísu.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir kann sér hóf:

það er mikil þörf að spara
það er ekkert grín.
Af því bara ætla ég bara
ekki að kaupa vín.

„Arðræningjar (hringhend sléttubönd)“ eftir Guðmundur Arnfinnsson:

Hrafnar garga, verja vé,
víða farga sauði,
safnar argur fóli fé,
fitnar margur kauði.

Indriði á Fjalli orti „Ó, Jón -“

Jón veit ekkert í sinn haus,
hvað á hann nú að segja:
Hann er orðinn orðalaus
af að hugsa og þegja.Þorgeir Magnússon yrkir:

Þó að aukist þref og rag,

þó að slitni söðulgjörð,

þó að versni veðurlag

veltist áfram blessuð jörð.