Helga Viðarsdóttir
Helga Viðarsdóttir
Ávöxtun hlutabréfasjóðsins Spakur Invest nam um 16,4% á fjórða fjórðungi síðasta árs. Þetta kemur fram í tilynningu til hluthafa sjóðsins. Í skýrslu til hluthafa vegna þriðja ársfjórðungs 2022 var bent á að forsendur væru fyrir hækkunum þegar verðbólguhorfur í Bandaríkjunum færu batnandi

Ávöxtun hlutabréfasjóðsins Spakur Invest nam um 16,4% á fjórða fjórðungi síðasta árs. Þetta kemur fram í tilynningu til hluthafa sjóðsins.

Í skýrslu til hluthafa vegna þriðja ársfjórðungs 2022 var bent á að forsendur væru fyrir hækkunum þegar verðbólguhorfur í Bandaríkjunum færu batnandi. Verðbólgan vestanhafs mældist þá 8,2% á ársgrundvelli en mældist 6,5% á ársgrundvelli í lok árs. Sú þróun skýrir að hluta ávöxtun sjóðsins á tímabilinu eftir því sem fram kemur í tilkynningunni.

Spakur Invest hf. fjárfestir eingöngu í hlutabréfum skráðra virðisfyrirtækja í Bandaríkjunum og á Bretlandi.

Sjóðurinn er rekinn af Spaki Finance og honum stýra Jökull Jóhannsson og Helga Viðarsdóttir, sérfræðingar í verðmati fyrirtækja. Gengi sjóðsins hækkaði um rúm 18% árið 2021, sem janframt var fyrsta rekstrarár sjóðsins.

Í umfjöllun Morgunblaðsins í júní sl. kom fram að eignir sjóðsins næmu tæplega 1,4 milljörðum króna og að hluthafar væru rúmlega 30 talsins. Helga sagði þá í samtali við Morgunblaðið að markmið sjóðsins væri að ná 12% árlegri ávöxtun. Þá sagði hún jafnframt að sjóðurinn hefði trú á bandaríska hagkerfinu og stöðu bandaríkjadals, en sjóðurinn gerir upp í bandaríkjadölum.