Stoltir Ólafur Elí með spóninn og Erlendur, langafi hans, með askinn.
Stoltir Ólafur Elí með spóninn og Erlendur, langafi hans, með askinn. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Bóndadagurinn er í dag og þá er fátt þjóðlegra en að háma í sig þorramat úr útskornum aski og nota til þess forláta spón. „Óli fékk fyrst kjötsúpu úr aski sínum og vill örugglega líka fá hákarl og þvíumlíkt úr honum,“ segir Erlendur Kári …

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Bóndadagurinn er í dag og þá er fátt þjóðlegra en að háma í sig þorramat úr útskornum aski og nota til þess forláta spón. „Óli fékk fyrst kjötsúpu úr aski sínum og vill örugglega líka fá hákarl og þvíumlíkt úr honum,“ segir Erlendur Kári Kristjánsson um Ólaf Elí, son sinn, fimm ára, að verða sex, sem átti sér þá ósk heitasta að eignast ask og spón að hætti fornmanna og var bænheyrður á dögunum.

Eftir að Óli fór í Árbæjarsafnið og Þjóðminjasafnið með Ólafi Sæmundssyni, afa sínum, fékk hann óstjórnlegan áhuga á öskum og spónum og talaði um að hann vildi eiga svona gamaldags ílát. Erlendur Sveinsson, langafi hans, greip boltann á lofti og fékk hagleiksmanninn Ólaf Sveinsson á Akureyri til þess að búa til ask og spón og merkja Óla með höfðaletri. „Það var stórkostleg stund að sjá hvað hann var himinlifandi, þegar ég gaf honum þetta fyrir skömmu,“ segir Erlendur, en askurinn er úr furu, lokið úr eik og spónninn úr kýrhorni. „Þegar hann fékk svo kjötsúpu í askinum var hann heillaður af þessu, því svona höfðu fornmennirnir borðað og honum fannst hann vera orðinn einn þeirra.“

Vill verða fornleifafræðingur

Hjónin Erlendur og Aðalheiður Ýr Ólafsdóttir segja að sonurinn hafa snemma heillast af náttúrunni. „Hann elskar að safna fornmunum og spá í hvernig allt var í gamla daga,“ segir móðir hans. Áhuginn hafi byrjað þegar hann hafi leikið sér með risaeðlur og viljað grafa eftir risaeðlubeinum. „Hann vill verða fornleifafræðingur og grafa eftir beinum,“ upplýsir Aðalheiður. Sumarið 2021 hafi þau skoðað safnið á Hjalteyri og þar hafi hann meðal annars fallið fyrir rostungshauskúpu. „Lene Zachariassen á safninu gaf honum uppstoppaða grásleppu, sem hann geymir í herberginu sínu,“ minnir pabbi hans á. „Hann safnar öllu gömlu og svo skeljum og kuðungum,“ leggur Aðalheiður áherslu á. Frændfólk hans hafi komið færandi hendi frá Taílandi og gefið honum fullan poka af slíkum varningi um liðna helgi og vinir þeirra í Ástralíu hafi gefið honum risastóra klam-skel í jólagjöf. „Hann horfir á heimildaþætti með David Attenborough, þekkir nöfnin á helstu skeljunum og hefur sagt krökkunum á leikskólanum frá þeim,“ heldur hún áfram.

Í ferð fjölskyldunnar á Spáni fékk Óli að kaupa steingervinga og hann fékk steingervinga frá Marokkó í skóinn fyrir nýliðin jól. Erlendur segir að Óli njóti sín sérlega vel í sveitinni á Álftanesi og þar hafi hann fundið ýmislegt í fjörunni. „Honum þótti líka spennandi að sigla innan um hrefnur og höfrunga skammt frá Húsavík, en allt þetta sýnir hvað hann hefur mikinn áhuga á náttúrunni.“

Óli hefur kynnst þorrablótum í leikskólanum og smakkað þorramat. „Hann er kraftmikill og ég er viss um að hann á eftir að fá sér þorramat með okkur og borða hann úr askinum,“ áréttar Erlendur Kári.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson