Verðbréf Hægt er að eiga viðskipti í rauntíma með nýju verðbréfaappi.
Verðbréf Hægt er að eiga viðskipti í rauntíma með nýju verðbréfaappi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hannes Árdal, framkvæmdastjóri Acro verðbréfa, segir í samtali við Morgunblaðið að viðtökur við nýju verðbréfaappi fyrirtækisins sem sett var á markað í gær hafi verið mjög góðar. „Það var löngu kominn tími á svona lausn á Íslandi

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Hannes Árdal, framkvæmdastjóri Acro verðbréfa, segir í samtali við Morgunblaðið að viðtökur við nýju verðbréfaappi fyrirtækisins sem sett var á markað í gær hafi verið mjög góðar.

„Það var löngu kominn tími á svona lausn á Íslandi. Hún hefur verið til í ýmsu formi en ekki með svona góðum aðgangi að viðskiptum og jafn góðum upplýsingum og nú,“ segir Hannes.

Í appinu geta almennir fjárfestar í fyrsta sinn átt viðskipti með íslensk hlutabréf í rauntíma. Þá er hægt að fylgjast með eignasafni og markaðsgögnum í rauntíma sömuleiðis.

Sama aðgang og fagfjárfestar

„Hingað til hafa fjárfestar þurft að eiga viðskipti með fimmtán mínútna gömul gögn. Nú fá allir sem nota appið sama aðgang og fagfjárfestar og stofnanafjárfestar hafa haft. Almenningur hefur sýnt hlutabréfaviðskiptum mikinn og vaxandi áhuga síðustu misseri og ár og viðtökurnar við appinu sýna að þetta var löngu orðið tímabært,“ segir hann.

Hannes segir að munurinn á appi Acron og öðrum lausnum sem hægt hefur verið að nota í hlutabréfaviðskiptum sé að nýja appið sé sérhæft verðbréfaaapp. Aðrar lausnir hafi til dæmis verið hluti af bankaöppum viðskiptabankanna.

„Með okkar appi geturðu loksins átt viðskipti á jafnréttisgrundvelli, með sömu upplýsingar og allir aðrir fjárfestar,” segir hann.

Ná til nýs hóps

Spurður um hvatann að smíði appsins segist Hannes sjá appið sem möguleika á að ná til nýs hóps viðskiptavina. „Við höfum fyrst og fremst verið að vinna fyrir stofnanafjárfesta. Við sjáum tækifæri í því að bjóða nú sömu þjónustu til annarra fjárfesta.“

Um tekjuhliðina segir Hannes að þóknun verði tekin af öllum viðskiptum. „Við erum með lægstu þóknunina á markaðnum í dag og ætlum okkur að halda áfram að vera samkeppnishæf.“

Ókeypis er að ná í appið og nota það að öðru leyti. „Draumurinn er að halda því þannig. Það er auðvitað háð því hvernig notkunin verður,“ segir Hannes að lokum.

Höf.: Þóroddur Bjarnason