Vinir íslenskrar náttúru (VÍN) hafa opnað nýja vefsíðu á léninu natturuvinir.is. Þar er að finna margvíslegan fróðleik um málefni er lúta að kolefnisbindingu og vernd líffræðilegrar fjölbreytni, landslags og menningaminja. Á vef VÍN er mikið lagt upp úr vísindalegri nákvæmni og áreiðanleika upplýsinga.
Á vefnum eru tveir nýir pistlar. Annars vegar pistill Sigfúsar Bjarnasonar, fyrrverandi deildarstjóra hjá Umhverfisstofnun Evrópu, „Kolefniseiningaræktun, kolefnisjöfnun og grænþvottur“. Hins vegar pistill Sigurðar Hjalta Magnússonar plöntuvistfræðings og Hans H. Hansen landfræðings, „Skógrækt á Íslandi – hversu stór svæði eru tiltæk fyrir nýja skóga?“
VÍN var formlega stofnað haustið 2022. Stofnfélagar, sem eru rúmlega 40, vilja vernda íslenska náttúru. Félagsmenn eru nú um 50 talsins. Tilgangur félagsins er að fjalla um náttúruverndarmál með áherslu á skaðleg áhrif ágengra og framandi tegunda í íslenskri náttúru og móta tillögur til úrbóta. Stjórnvöldum verður veitt aðhald við skipulag og framkvæmd áætlana sem varða náttúru landsins. gudni@mbl.is