Í Gautaborg
Jóhann Ingi Hafþórsson
johanningi@mbl.is
Íslenska karlalandsliðið í handbolta fær sitt þyngsta próf til þessa á HM í Svíþjóð og Póllandi er það mætir Evrópumeisturum Svíþjóðar í Gautaborg klukkan 19:30 í milliriðli II. Svíar hafa verið á mikilli siglingu og unnið alla leiki sína til þessa á mótinu á heimavelli af miklu öryggi. Síðast vann sænska liðið það ungverska með sannfærandi hætti, 37:28. Íslenska liðið tapaði fyrir sama andstæðingi í riðlakeppninni.
Verkefnið verður því ærið, gegn einu allra besta handboltaliði heims í dag, fyrir framan 12.000 áhorfendur í Scandinavium-höllinni glæsilegu. Um 10.000 þeirra verða gulklæddir að hvetja sænska liðið áfram. Verkefni Íslands er að þagga niður í Svíunum í höllinni og koma sér í góða stöðu fyrir lokaumferð milliriðilsins. Það er auðveldara um að tala en í að komast.
Örlögin í eigin höndum
Jákvæðu fréttirnar eru þær að örlög íslenska liðsins eru í þeirra eigin höndum. Liðinu nægir að fá þrjú stig gegn Svíþjóð og Brasilíu í tveimur síðustu leikjunum í milliriðli til að fara áfram í átta liða úrslit. Þá er einnig jákvætt að engin ný meiðsli hafa gert vart við sig í íslenska hópnum undanfarna tvo sólarhringa og ættu allir að vera klárir í slaginn. Allir æfðu í keppnishöllinni í gær.
Elvar Örn Jónsson hefur hrist af sér veikindi, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska liðið og sérstaklega varnarleikinn. Hann missti af síðustu tveimur leikjum en er nú klár í slaginn. Hann bindur varnarleik íslenska liðsins saman.
Þá hefur íslenska liðið sýnt á undanförnum árum að það getur unnið hvaða andstæðing sem er. Sigrar á gríðarlega sterkum þjóðum á borð við Dani og Frakka á undanförnum stórmótum, sýnir að íslenska liðið getur unnið hvaða lið sem er og fá lið geta staðist því íslenska snúning þegar allt gengur upp.
Unnu gestgjafana síðast
Þá er aðeins rúmt ár síðan Ísland vann Ungverjaland á útivelli á Evrópumótinu. Með þeim sigri sýndu íslensku leikmennirnir mikinn styrk og getu til að þagga niður í þúsundum vongóðra stuðningsmanna gestgjafa á stórmóti. Möguleikarnir eru svo sannarlega til staðar. Verkefnið gegn Svíunum er erfitt, en langt frá því óleysanlegt.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari sagði hvergi veikan blett að finna í liði Svíþjóðar, þegar hann ræddi við Morgunblaðið í keppnishöllinni í Gautaborg í gær.
„Þeir spila góða vörn og eru með góða markverði. Þeir nýta hraðaupphlaupin vel. Það er gamla uppskriftin þeirra. Þeir eru líka mjög góðir í sókninni og eru með góða og jafna menn í öllum stöðum. Þeir spila mjög vel sem lið og þeir eru hvergi með veikan blett, enda Evrópumeistararnir. Það segir sitt um styrkleika þessa liðs,“ sagði Guðmundur.
Þarf allt að smella
Þrátt fyrir það er lítið annað í boði en að sigra Svía á þeirra heimavelli, ætli Ísland sér að keppa um efstu sæti mótsins. Með sigri er Ísland komið í góða stöðu fyrir lokaumferð milliriðlanna.
„Við þurfum að hitta á okkar besta dag í bæði vörn og sókn. Við þurfum líka markvörslu og það þarf allt að haldast í hendur, sérstaklega á útivelli, gegn Svíum.
Það þarf allt að smella saman og það getur gert það. Við komum með sigurvilja að vopni í þennan leik.“
Við ætlum að njóta þess að spila og vera með rétt hugarfar. Markmiðið er að vinna leikinn, það er ekkert annað í boði,“ sagði Guðmundur.
Landsliðsfyrirliðinn, Aron Pálmarsson, tók í sama streng og á von á afar erfiðum leik, gegn sjálfum Evrópumeisturunum á útivelli.
Erfitt að finna veikleika
„Við þurfum að eiga toppleik. Það er erfitt að finna einhverja veikleika á þessu liði. Þeir eru auðvitað með frábæran sóknarleik og frábæra menn í hverri stöðu og jafnvel tvo.
Leikurinn þeirra er mjög agaður í sókninni og í vörninni spila þeir þessa klassísku 6-0-vörn, en eru samt aggresívir. Svo eru þeir með frábæra markmenn. Það er erfitt að finna veikleika hjá þeim og því enn mikilvægara að við eigum okkar besta leik. Við þurfum að vera agaðir og vel undirbúnir,“ sagði Aron við Morgunblaðið.
Hann sagði íslenska liðið klárt í slaginn og benti á að liðið hefði áður sýnt að það gæti unnið bestu lið Evrópu á góðum degi.
„Þegar þú ert að spila á móti þessum topp 4-5 þjóðum þarftu að eiga toppleik. Við teljum okkur vera með lið sem getur unnið þessi topplið og við höfum sýnt það á undanförnum árum,“ sagði hann og hélt áfram:
„Þetta er í okkar höndum, eins og við viljum hafa það. Ef við vinnum síðustu tvo förum við í átta liða, sem er jákvætt. Það er stórt verkefni fram undan, sem við erum klárir í,“ sagði Aron.