Samkoma Helgi Hjörvar stýrði minningarstund um Halldór Rafnar.
Samkoma Helgi Hjörvar stýrði minningarstund um Halldór Rafnar. — Morgunblaðið/Eggert
Nokkrir samstarfsmenn og félagar Halldórs Rafnars úr Blindrafélaginu, fulltrúar fjölskyldu hans og fleiri komu saman á dagskrá í sal Blindafélagsins í gær, til að minnast þess að í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu hans

Nokkrir samstarfsmenn og félagar Halldórs Rafnars úr Blindrafélaginu, fulltrúar fjölskyldu hans og fleiri komu saman á dagskrá í sal Blindafélagsins í gær, til að minnast þess að í dag eru liðin 100 ár frá fæðingu hans. Halldór var mikilvirkur í starfi Blindrafélagsins og brautryðjandi í málefnum blindra og sjónskertra á sinni tíð.

Sigþór U. Hallfreðsson, formaður Blindrafélagsins, segir að Halldór hafi markað djúp spor í réttindabaráttu blindra og sjónskertra en hann var lengi í stjórn félagsins og formaður 1978 til 1986 og framkvæmdastjóri 1985 til 1994. „Halldór missti sjón skyndilega upp úr fimmtugu og það hafði mikil áhrif á hann, eins og aðra sem lenda í sömu aðstöðu. Hann fór í 10 vikna endurhæfingu í Torquy í Englandi, fyrsti Íslendingurinn sem það gerði, og kom heim gjörbreyttur maður, eins og hann orðaði það sjálfur, sjálfbjarga og fullur orku og sjálfstrausts,“ segir Sigþór.

Ásthildur dóttir Halldórs og samstarfsmenn minntust hans. Á samkomunni var tilkynnt um fjárframlag sem fjölskylda Halldórs leggur í sjóð Blindrafélagsins, Blindvörn á Íslandi, en sjóðurinn hjálpar til við að greiða umframkostnað sem blindir og sjónskertir verða fyrir í daglegu lífi sínu.