Bogi Arnar Finnbogason fæddist á Ísafirði 10. desember 1934. Hann lést á hjartadeild Landspítala Hringbraut 6. janúar 2023.

Foreldrar hans voru Finnbogi Ingólfur Magnússon, f. 23. júní 1898, d. 30. desember 1951 og Dagmar Una Gísladóttir, f. 20. september 1898, d. 21. mars 1971. Systkini hans voru: Guðrún Margrét, f. 19. janúar 1918, d. 10. desember 1941, Rögnvaldur, f. 25. október 1919, d. 9. júlí 1997, Ellen Svava, f. 25. október 1922, d. 23. maí 2012, Kristján Finnbogason, f. 6. apríl 1926, d. 1. apríl 2021, Dagmar Gréta, f. 13. febrúar 1936, d. 8. ágúst 1936.

Eiginkona Boga Arnars er Una Sigurðardóttir, f. 1. janúar 1953. Þau giftu sig 17. apríl 1976. Foreldrar hennar eru Sigurður Friðriksson, f. 11. september 1924, d. 26. október 1997 og Anna Margrét Hrólfsdóttir, f. 24. apríl 1930.

Börn Boga Arnars og Unu eru:

1) Anna Dagmar Arnarsdóttir, f. 1. júlí 1974, eiginmaður Julien Oberlé, f. 16. ágúst 1976, d. 14. ágúst 2019. Synir þeirra eru Viktor Oberlé, f. 2010 og Axel Oberlé, f. 2014.

2) Ingunn Ragna Arnarsdóttir, f. 7. janúar 1976. Barn hennar og Magnúsar Jóhannssonar, f. 1971, er Arnar Ingi Magnússon, f. 2005. Börn Ingunnar og Jósefs Vigfússonar Amin, f. 1974, eru Harpa Lind Jósefsdóttir Amin, f. 2012 og Dagur Þór Jósefsson Amin, f. 2014.

3) Sigurður Ingi Arnarsson, f. 5. apríl 1987.

Fyrri eiginkona Boga Arnars var Hulda Júlíana Vilhjálmsdóttir, f. 7. júní 1927, d. 8. ágúst 2004. Þau ólu upp eina fósturdóttur, bróðurdóttur Boga Arnars frá fjögurra ára aldri fram á unglingsár, Margréti Geirrúnu Kristjánsdóttur, f. 9. mars 1957, eiginmaður Karl Þorsteinsson, f. 31. janúar 1952. Börn þeirra eru Þórhildur Ragna, f. 1977, Kristján Magnús, f. 1980 og Guðbjörg Hulda, f. 1990, og barnabörnin eru sex.

Bogi Arnar var fæddur á Ísafirði en fjölskyldan flutti til Reykjavíkur eftir að yngsta dóttirin Gréta dó.

Bogi Arnar lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1954.

Hann vann hjá Jarðborunum ríkisins sem bormaður víða um land.

Bogi Arnar starfaði við kennslu í Grunnskólanum Borgarnesi, Iðnskólanum í Reykjavík og Vélskóla Íslands. Hann vann síðar sem skrifstofustjóri í Vélskólanum til ársins 1984.

Hann söng í kirkjukórum Dómkirkju, Háteigskirkju og Seljakirkju.

Bogi starfaði í Frímúrarareglunni frá 1981 og gegndi þar trúnaðarstörfum.

Bogi Arnar var formaður SAMFOK frá stofnun árið 1983 til ársins 1986 og kom síðar að stofnun samtakanna Heimili og skóli árið 1992. Hann var fyrsti formaður Vímulausrar æsku sem var stofnuð árið 1986. Hann var einnig formaður Framfarafélags Skóga- og Seljahverfis þegar það var stofnað árið 1986. Einnig var hann í samtökunum Betra Breiðholt og var ritari í fyrstu stjórn árið 2006.

Bogi Arnar vann hjá Sjónvarpinu sem þýðandi og þulur margskonar fræðsluefnis auk þess að þýða fasta framhaldsþætti og bíómyndir. Hann varð löggiltur dómtúlkur og skjalaþýðandi árið 1984 og stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Þýðingaþjónustu Boga Arnars, og vann við þýðingar fram yfir áttræðisaldur.

Útför Boga Arnars fer fram frá Seljakirkju í dag, 20. janúar 2023, klukkan 13.

Ég spurði pabba þegar ég var lítill, af hverju ertu eiginlega svona gamall? Þá sagði pabbi við mig: en ímyndaðu þér hinn kostinn. Hans ekta kaldi húmor sem ég fattaði ekki alveg þá, en er svona að byrja að hlæja að núna.

Það er stórt skarð að fylla upp í að koma og hefja upp raustina á þessari stundu. Bogi Arnar, pabbi minn, var alltaf tilbúinn að koma upp og tjá sig um það sem honum fannst aðkallandi. Svo sagði hann margar sögur um hvaðan hann kom, hvað hann gerði og dæmi um eigin töffaraskap, mjög oft. Það þurfti enginn að tala fyrir hann.

Það var heldur ekkert alltaf auðvelt að komast að í samræðunum. En hver getur komið og sagt eins skemmtilega frá og hann? Nú setur mig hljóðan en við tekur tímabil minninga og pabbi kenndi mér hvernig á að rifja upp gamlar minningar oft og mörgum sinnum.

Ég er yngstur eins og pabbi, og man ekki eftir pabba öðruvísi en með skrifstofuna sína heima. Hann var alltaf að vinna, að þýða alls kyns skjöl, stundum heilu næturnar. En hann tók truflunum samt fagnandi. Ég bankaði hjá honum og kyssti hann á skallann til þess að láta hárið vaxa og fékk að launum einn hlaupbangsa.

Þetta sýnir t.d. hvað hann var örlátur á tíma en líka gjafmildur. Hann var alltaf með nýjustu tækni, tölvur, farsíma og passaði sig að kaupa alltaf það sem var mesta gæðavaran og keypti líka flottasta dótið fyrir mig.

Hann mat sinn eigin tíma vel, sem var mjög mikilvægt þar sem hann rak sitt eigið fyrirtæki og gat meira að segja gefið sjálfum sér frí reglulega til þess að fara með fjölskyldunni í sumarbústað. En hann tók samt tölvuna með sér. Þess á milli var hann samt alveg til í að spila. Hans mikla íslenskuþekking naut sín vel í því að skálda upp allskonar orð þegar við spiluðum Fimbulfamb.

Pabbi var mikið fyrir ferðalög, sem var gott því hann fór á svo margar ráðstefnur, t.d. fyrir Vímulausa æsku. Hann sagðist alltaf vera plataður til að vera formaður þessara fjölmörgu félaga sem hann var í. Hann nefndi oft að hann hefði viljað geta farið í nám í Bandaríkjunum og þá hefði hann mögulega ekki snúið til baka. Þó að hann hafi verið mjög peppaður fyrir því að ég færi svo í skiptinám sjálfur þá var hann feginn að fá mig til baka.

Pabbi var oft í uppreisn og baráttu fyrir betra samfélagi. En hann var auðmjúkur, talaði við alla sem hann hitti, um að hann hefði verið heppinn að hitta mömmu. Hann var stoltur af mér og ég verð alltaf mjög stoltur af honum.

Sigurður

Ingi Arnars Unuson.