Erla Sigurbjörnsdóttir fæddist í Reykjavík 31. mars 1938. Hún lést á líknardeild LSH 8. janúar 2023.

Foreldrar hennar voru Unnur Guðnadóttir, f. 1.8. 1917, d. 15.11. 1990, og Sigurbjörn Frímann Meyvantsson, f. 26.6. 1913, d. 31.1. 1951. Systur Erlu eru Guðfinna, f. 14.2. 1945, og Sigurbjörg, f. 26.7. 1951.

Erla giftist Páli Heiðari Jónssyni. f. 16.2. 1934, d. 12.11. 2011, þau skildu. Árið 1963 giftist Erla eftirlifandi eiginmanni sínum, Eysteini Jónssyni, f. 13. september 1941. Börn þeirra eru: 1) Jón Heiðar Pálsson. Eiginkona hans er Anna Jóna Einarsdóttir. Börn þeirra eru: a) Einar Helgi, maki Elva Björk Gísladóttir. Börn þeirra eru Halldóra Sif og Elín Björt. b) Guðrún, maki Stefán Már Sturluson. Börn þeirra eru Reynir, Elís, Sturla Már og Jón Logi. c) Páll Heiðar, maki Unnur Benediktsdóttir, sonur þeirra er Jón Heiðar. d) Matthildur Soffía, maki Þór Pétursson, dóttir þeirra er Anna Ýr. 2) Erla Óladóttir. Börn hennar eru: a) Natalie, maki Luis Filipe. Sonur þeirra er Kristian. b) Matthew, maki Sally Wakefield. Börn þeirra eru Oliver og Florence. 3) Sólveig Óladóttir. Eiginmaður hennar er Sveinn Rúnarsson. Börn: a) Kristjana Björg, maki Ívar K. Arnarsson. Börn: Sóley Kristín, Bjarki Þór og Viktoría. b) Petra Steinunn, maki Kristinn Lind Guðmundsson. Börn: Sveinn Ísak og Freyja. c) Snorri Örn, maki Charlotte Theobald og börn þeirra eru Ísold Rose og Henry Björn. d) Ásta Kara, maki Ólafur Uni Karlsson. Sonur þeirra er Hjörtur Rafn. 3) Solveig Unnur Eysteinsdóttir. Eiginmaður hennar er Eiríkur Davíðsson. Börn þeirra eru: a) Rósa, maki Almarr Erlingsson, börn þeirra eru Máney Marín, Tindur Snær og Eldey Emma. b) Eysteinn, maki Karen Sigurlaugsdóttir og dóttir þeirra er Yrsa. c) Eyþór, maki Ingunn Haraldsdóttir. 5) Margrét Erla Eysteinsdóttir. Eiginmaður hennar er Kristján Hilmarsson. Börn þeirra eru: a) Erla Brimdís, maki Þorbjörn Hreinn Matthíasson. Börn þeirra eru Kristján Árni, Edda Ósk, Róbert Darri og Margrét Aþena. b) Arnar Freyr, unnusta Þórunn Andrésdóttir. 6) Unnur Sigurbjörg Eysteinsdóttir. Eiginmaður hennar er Ingólfur Ásgeirsson. Börn þeirra eru: a) Ingunn Birna, maki er Q Yves Thulliez, sonur þeirra er Sigurður Ingi. b) Bergrún. c) Melrós Dögg, börn hennar eru Breki Maron og Apríl Birta. d) Unnar Ingi. 7) Melrós Eysteinsdóttir. Börn hennar eru: a) Kristján Orri, maki Berglind Rúnarsdóttir, börn þeirra eru Benedikt Merkúr, Úlfur Ares og Hafþór Arnar. b) Haukur Örn, sambýliskona Alicia Grimm.

Erla og Eysteinn bjuggu fyrstu hjúskaparár sín í Reykjavík en síðar nokkur ár á Vestfjörðum; Flateyri, Hornbjargsvita og Bíldudal. Árið 1973 fluttu þau til Hafnar í Hornafirði og bjuggu þar í 13 ár. Þar starfaði Erla hjá Kaupfélagi Austur-Skaftfellinga en rak einnig eigin verslun. Árið 1985 fluttu þau til Reykjavíkur þar sem Erla vann við verslunarstörf og á Landspítalanum. Síðar fluttu þau til Hafnarfjarðar og bjó hún þar til æviloka.

Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 20. janúar 2023, klukkan 13.

Elsku hjartans ástin mín er búin að kveðja þetta jarðlíf. Yndislega konan mín sem í 60 ár fyllti líf mitt hamingju og gleði. Þessi 60 ár sá ég aldrei neitt nema sólskin. Konan sem gerði mig svo ríkan af öllum börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum. Þessi stóri hópur styður mig nú og gleður mig þegar ég tekst á við sorgina. Við Erla áttum mjög gott og skemmtilegt líf saman og ég er þakklátur fyrir allt sem elsku Erla mín gerði fyrir mig.

Þó að ég sé mjög rauðeygður þessa daga er ég hamingjusamur, því ég hef kynnst því hvernig það er að dansa undir regnboganum.

Elsku þig að eilífu,

þinn

Eysteinn.

Skellihlátur, bros, ræktarsemi, gleði og hamingja. Mamma valdi hamingjuna og gleðina umfram allt annað. Hún kunni að vera hamingjusöm. Hún hafði alltaf eitthvað að hlakka til. Hún kunni að gleðjast yfir litlu hlutunum en líklega mest yfir samverustundum með fólkinu sínu. Fólkið hennar mömmu telur marga fleiri en fjölskylduna hennar. Hún hafði stærsta faðm í heimi og tók svo vel á móti öllum. Allir elskuðu mömmu. Hvernig var annað hægt. Hún var svo góð, skemmtileg, hlý og yndisleg við alla unga sem aldna.

Hamingjan felst í svo mörgu og mamma lifði fyrir að gera aðra hamingjusama. Hún vildi að öllum liði vel. Ferðalögin, útilegurnar, veiðiferðirnar, matarboðin, spilakvöldin, kaffispjallið, símtölin ... Hvernig verður líf fólksins hennar mömmu án alls þessa?

Að ferðast með mömmu var alltaf ævintýri. Við ferðuðumst víða. Eftirminnilegust er ferðin á Special Olympics til Abú Dabí þar sem mamma sló auðvitað í gegn hjá keppendum, þjálfurum, fyrirmennum og öllum starfsmönnum hótelsins, sem urðu auðvitað vinir hennar. Hún mamma elskaði að vera innan um ungt fólk enda var hún svo ung í anda.

Hún skilur svo mikið eftir sig og það var hægt að tala við hana um allt því hún var svo fróð og víðlesin. Hún kenndi okkur svo margt. Ef það var eitthvað sem hún kenndi öllum sem hana þekktu þá var það ástin. Hún mamma hafði svo mikla ást að gefa. Ég held að mamma hafi alltaf vitað hvað raunverulega skiptir máli í lífinu og allar skemmtilegu minningarnar sem hún skapaði með börnum og barnabörnum munu lifa með afkomendum hennar.

Mamma kom alltaf auga á það jákvæða. Kímnigáfan og gleðin voru henni eðlislæg. Húmorinn hennar mömmu var einstakur og ég á svo margar minningar um okkur skelli hlægjandi. Alveg fram í andlátið hló hún mamma. Hún hafði húmor fyrir sjálfri sér og lífinu.

Ljúfasta gleði allrar gleði

er gleði yfir því, sem er alls ekki neitt

engu, sem þér er á valdi eða í vil

gleði yfir engu og gleði yfir öllu

(Axel Juel)

Elsku pabbi minn, missir þinn er svo sár. Þið voruð svo samheldin og heppin hvort með annað. Mamma var kletturinn í þínu lífi eins og svo margra annarra. Hver einasta stund með mömmu var gæfustund og við getum huggað okkur við dásamlegar minningar og þakklæti.

Þín dóttir,

Unnur.

Það er til fólk sem hefur áhrif á allt sem það snertir og þannig var mamma mín. Kærleikurinn alltaf í forgrunni í öllu sem hún tók sér fyrir hendur og við sem vorum henni samferða fengum að njóta. Mamma var svo góð kona, alltaf með opinn faðminn og óspör á hrósið. Hún var svo stolt af okkur hópnum sínum og hélt vel utan um okkur alla tíð. Afmæliskortin frá mömmu voru einstök þar sem hún skrifaði alltaf svo fallega til okkar því mamma kunni að gleðja og gefa af sér.

Ég mun sakna símtalanna dag hvern. Það verður erfitt að geta ekki hringt í mömmu og spjallað og fengið góð ráð. Það var svo gaman að tala við mömmu, heyra sögur frá ævintýrum dagsins því hún hafði alltaf frá einhverju skemmtilegu að segja.

Að missa mömmu er þyngra en tárum taki. Ég gæfi mikið fyrir breyttar aðstæður en núna verð ég að reyna að ylja mér við allar fallegu minningarnar, það tekur þær enginn frá mér.

Allar skemmtilegu samverustundirnar, öll ferðalögin hér heima og erlendis. Ferðin á Vestfirði, þar sem mamma og pabbi sögðu okkur margar skemmtilegar sögur frá þeim tíma sem við bjuggum þar, allar veiðiferðirnar okkar saman þar sem mamma var alltaf veiðidrottningin. Ferðin til London þar sem þið pabbi voruð búin að skipuleggja, listasöfnin, fótboltinn, leikhúsin, maturinn og allar hinar samverustundirnar og ferðalögin. Að vera í félagsskap með mömmu var alltaf svo gaman, hún var mesti húmoristi sem ég þekki, hún hafði svo gaman af lífinu og að vera með fólk nálægt sér.

Mamma málaði myndir, lék í leikritum, dansaði zumba, las bækur, spilaði bridge, sunddrottning og hélt skemmtilegustu matarboðin og svo ótalmargt fleira en umfram allt var hún elskandi og umvefjandi.

Elsku hjartans mamma mín, ég hef alla tíð sagt að þú værir besta mamma í heimi. Takk fyrir allt það sem þú varst mér, ég mun alltaf geyma minningu þína í hjarta mér.

„Einhvers staðar einhvern tímann aftur

liggur leið þín um veginn til mín“

(Magnús Eiríksson)

Elsku pabbi, missir þinn er svo mikill og sár. Þið voruð svo samheldin hjón, drífandi og skemmtileg. Við styðjum þig á þessum erfiðu tímum og höldum utan um hvert annað í sorginni.

Þín dóttir,

Margrét Erla.

Það væri hægt að skrifa margar bækur um mömmu og segja ótal sögur. Í gegnum lífið hefur hún verið okkar besti vinur auk þess að vera límið í fjölskyldunni. Hún hafði mikinn metnað í að passa upp á að fjölskyldan hittist reglulega og stæði saman í gegn um þykkt og þunnt.

„Ef ég væri ekki til værum við ekki hér í dag,“ sagði mamma í síðustu ræðunni sem hún hélt fyrir okkur í Portúgal í september á síðasta ári. Þetta eru orð að sönnu enda eru í dag hátt í 50 afkomendur. Við vorum svo heppin að ná tveimur vikum með henni og pabba í fríi. Það var magnað að fylgjast með mömmu í lauginni í boltaleikjum með börnunum.

Mamma tók nokkrar verslunarstöðvar í nefið og þeyttist um í innkaupaferðum að kaupa gjafir handa börnum og barnabörnum og barnabarnabörnum. Hún var alltaf fyrst á fætur og byrjuð að hugsa og skipuleggja verkefni dagsins.

Hún var varla lent á Íslandi þegar hún var komin í laxveiði í Affallið til Sollu systur. Mamma setti í laxana, lagin og þolinmóður veiðimaður. Þá heyrðist hrópað „Eysteinn!“ og pabbi kom hlaupandi og hafði ekki undan að landa fiskunum sem hún setti í! Hún elskaði listina að setja í fiskana en hafði engan áhuga á að landa þeim.

Það var ekki að sjá að þarna væri 84 ára gömul kona búin að berjast við veikindi í fjögur ár. Mamma kvartaði aldrei og þegar við spurðum hvernig hún hefði það var viðkvæðið: „Tölum um eitthvað skemmtilegt, hvað er að frétta af ykkur?“

Mamma var allt í senn: Móðir, húsmóðir, verslunareigandi, listamaður, verslunarstjóri í kaupfélaginu, saltaði síld, lék í leikritum, söng í hljómsveit, safnaði steinum, málverkum, spilaði bridge, tefldi, var í zumba, sundi, golfi, veiði og ferðaðist um allan heim. Auk þess var hún fararstjóri í Búlgaríu og fór með hópa í ferðir til Tyrklands.

Hún hafði mikinn áhuga á bókmenntum, tónlist og leiklist og var yfirleitt með áskriftarmiða í leikhús og á tónleikaraðir.

Mamma var líka vinur og félagi bæði okkar allra og að auki góður vinur vina okkar systkinanna. Þegar við vorum að alast upp voru allir alltaf velkomnir og vel tekið á móti félögum og skólafélögum. Afmælin sem hún hélt fyrir okkur voru þau bestu og umtöluð. Hún hafði áhuga á öllu og öllum sem hún kynntist og eignaðist marga vini og félaga í gegn um lífið.

Í gegn um árin hefur varla liðið svo vika að við höfum ekki annaðhvort hist eða talað saman í síma. Mamma fylgdist vel með öllu og öllum í fjölskyldunni. Hún vildi alltaf vita ef einhver var að fara eitthvað og þá hvenær hann færi og kæmi og hvert erindið væri.

Ég gleymi aldrei jólunum þegar við elduðum saman og hlustuðum á tónlist. Mamma var listakokkur og kenndi mér ekki bara að elda heldur einnig hve miklu máli skipti að bera matinn „fallega fram“ eins og hún sagði alltaf.

Mjólkurglas og smákökur á jóladag tengi ég alltaf við hana og er fastur siður á mínu heimili í dag.

Elsku mamma, við eigum eftir að sakna þín mikið og það er ómetanlegt að eiga allar góðu minningarnar um þig í gegn um lífið.

Jón Heiðar Pálsson og Anna Jóna Einarsdóttir.

Mín fyrstu kynni af Erlu tengdamóður minni gleymast seint. Þarna stóð ég í anddyrinu, umkomulítill og frekar feiminn ungur maður, kominn í mína fyrstu heimsókn til þeirra hjóna Erlu og Eysteins. Erla tók á móti mér, lágvaxin kona með sinn „stóra“ hlýja faðm. Hún tók mér opnum örmum og bauð mig velkominn rétt eins og „týnda soninn“ í sína samhentu fjölskyldu. „Einn fyrir alla og allir fyrir einn!“ Það sem einkenndi Erlu umfram allt annað var hlýjan, húmorinn, hláturinn, blikandi augun að ógleymdu brosinu sem gat brætt flesta.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,

sem dropi breytir veg heillar skálar

(Einar Benediktsson)

Nú er við minnumst hennar kemur í huga okkar sem eftir stöndum allt sem hún gaf okkur, jafnvel án þess að við tækjum eftir því. Allar ósýnilegu gjafirnar, öll kennslan í mannlegum samskiptum, umburðarlyndi og kærleikur.

Úlfur Ragnarsson læknir orti svona um ósýnilegu gjafirnar:

Ég veit ekki, hvort þú hefur

huga þinn við það fest,

að fegursta gjöf sem þú gefur

er gjöfin, sem varla sést.

Ást án kröfu um endurgjald minnir oft á samband móður og barns. Ósýnilegi strengurinn sem aldrei rofnar, aldrei slokknar og aldrei deyr. Þetta er mín sýn á tengdaforeldra mína Erlu og Eystein. Ég á þeim svo sannarlega gjöf að gjalda.

Ástúð í andartaki

auga sem góðlega hlær

hlýja í handartaki

hjarta sem örara slær.

Ég get ekki látið staðar numið hér án þess að nefna Eystein, hennar klett í lífinu. Þau voru alltaf samtaka og voru sem einn maður í einu og öllu þótt ólík væru. Ég bið almættið nú að styðja hann og styrkja.

Kæra Erla, far þú í friði og friður guðs þig blessi. Hafðu þakkir fyrir allt og allt.

Fjölskyldunni allri votta ég mína dýpstu samúð.

Þinn tengdasonur,

Kristján Hilmarsson.

Elsku amma okkar.

Við munum svo vel eftir því að mæta, eins og svo oft áður, í heimsókn til ykkar í Hafnarfjörðinn. Afi bíður í dyrunum og tekur vel á móti okkur með faðmlagi. Þú kemur hlaupandi úr eldhúsinu, nýbúin að snúa við pönnukökunni og slökkva á ofninum, þar sem brauðrétturinn er að eldast. Risaknús og kossar taka á móti okkur. Ánægjan að við séum mætt leynir sér ekki. Við setjumst við dekkað borðið sem svignar undan veitingum sem allar eru skreyttar líkt og Olaf Palme sé að koma í heimsókn. Við taka nokkrir klukkutímar af hlátrasköllum og sögum. Sögum sem við höfum, ótrúlegt en satt, aldrei heyrt áður. Erfitt er að trúa því hvernig það er hægt að eiga svona margar magnaðar og fyndnar sögur en þeir sem kynnast þér átta sig þó fljótt á því. Þú varst snillingur að koma þér í kómískar aðstæður og jafnvel enn meiri snillingur að koma þér út úr þeim. Af einlægum áhuga vildir þú heyra allar nýjustu sögurnar af okkur enda alltaf verið forvitin og lagt mikið upp úr því að vita hvað þitt fólk er að gera. Við segjum þér frá vinnunni, skólanum, vinunum, vandamálunum og djamminu, því að spjalla við þig er eins og að spjalla við jafnaldra. Besta vin.

Við systkinin eigum margar góðar minningar sem allar eiga sér stóran stað í okkar hjörtum. Að labba frá Kanastöðum yfir í bústaðinn Grafarbakka, keyra á Skagaheiði og veiða með ykkur afa í nokkra daga í veiðikofanum eða einfaldlega kíkja til ykkar í kaffi í Hafnarfjörðinn. Alltaf varst þú að gefa af þér. Þú kenndir okkur að teikna þegar við vorum lítil, kenndir okkur að spila (og þá aðallega að svindla), kenndir okkur að veiða og kenndir okkur að hafa húmor fyrir lífinu, brosa og sýna fólkinu í kringum okkur ást og væntumþykju.

Afkomendur þínir eru margir, sem betur fer, því þú hafðir alltaf gaman af því að hafa mikið af fólki í kringum þig. Það er gaman að horfa yfir hópinn og sjá hvað þú átt mikið í okkur öllum og hvernig þínir eiginleikar endurspeglast í okkur. Margir prakkarar eru í hópnum, mikill húmor, stríðni og félagslyndi. Mikið keppnisskap einkennir okkur og geta spilakvöld oft endað með nokkurra mínútna vinaslitum. Í okkur býr forvitni, sköpunargleði og ástríða. Við sjáum hæfileikaríka einstaklinga en fyrst og fremst sjáum við glaðlyndar manneskjur sem þykir vænt hverri um aðra og elska að hittast og hlæja saman.

Okkur langar að þakka þér elsku amma fyrir alla samveruna, hlátursköstin, kennslustundirnar, faðmlögin og kossana. Það má með sanni segja að þú hafir verið engum lík. Einstök manneskja sem allir elskuðu og vildu vera nálægt, jafnt ungir sem aldnir. Eftir situr mikill söknuður en á sama tíma erum við óendanlega þakklát fyrir þann tíma sem við fengum með þér.

Þín barnabörn,

Rósa, Eysteinn og Eyþór.